Íbúð Styrktarsjóðs seld
Á þingi SSF 2001 var samþykkt að Styrktarsjóður SSF myndi kaupa íbúð í grennd við Landsspítalann í Reykjavík til afnota fyrir þá félagsmenn sem þyrftu að dvelja fjarri heimili sínu vegna alvarlegra læknisaðgerða. Stjórn Styrktarsjóðs gerði samning við Krabbameinsfélag Íslands um að félagið annist rekstur íbúðarinnar og sjái alfarið um úthlutun og allt utanumhald vegna hennar. Þann tíma sem félagsmenn SSF nýttu ekki íbúðina fékk Krabbameinsfélagið að nýta hana fyrir krabbameinssjúklinga sem þurftu að sækja meðferð hjá Geisladeild Landsspítalans.
Eins og félagsmenn SSF þekkja þá hefur orðið mikil breyting á starfsumhverfi þeirra og félagsmönnum SSF á landsbyggðinni hefur fækkað verulega. Þá hefur tilkoma sjúkrahótelsins breytt mjög aðstöðu fólk á landsbyggðinni. Því hefur íbúðin lítið verið notuð og ekki réttlætanlegt fyrir Styrktarsjóð SSF að vera áfram með þessa fjármuni bundna í fasteign. Krabbameinsfélagið átti 10% í íbúðinni og samið var um að félagið keypti 90% hlut Styrktarsjóðs. SSF mun leita nýrra leiða til að aðstoða þá félagsmenn sem annars hefðu nýtt sér íbúðina.