Undirritun kjarasamnings
Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og Samtök atvinnulífsins (SA) skrifuðu í dag (8.september) undir kjarasamning sem gildir fyrir alla félagsmenn SSF til ársloka 2018. Undirskriftin er með fyrirvara um samþykki félagsmanna SSF.
Launahækkanir á samningstímanum fyrir þá sem hófu störf fyrir 1. janúar 2015 og eru enn í starfi við undirritun kjarasamnings eru 16,5 til 22,2 prósent. Mest hækkun fyrir þá sem lægri launin hafa í anda þeirrar launastefnu sem stéttarfélög á almennum vinnumarkaði hafa undirritað í sumar. Mikilvæg endurskoðunarákvæði (uppsagnarákvæði) eru jafnframt á árunum 2016, 2017 og 2018 ef forsendur kjarasamninga ganga ekki eftir.
Kjarasamningurinn verður skýrður enn nánar á næstu dögum á heimasíðu SSF og öðrum miðlum SSF. Áætlað er að greiða atkvæði um kjarasamninginn dagana 11. til 16. september. Við hvetjum alla félagsmenn til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Það er afar mikilvægt að allir láti í ljós skoðun sína á samningnum.
Allir félagsmenn SSF fá tölvupóst með lykilorði til að skrá sig inn á atkvæðasíðuna. Ef félagsmenn hafa spurningar um kjarasamninginn og einstök atriði hans er best að senda þær spurningar á netfangið [email protected] og starfsmenn og samninganefnd SSF munu svara eins fljótt og unnt er.
Hér að neðan má sjá skýringar og helstu þætti kjarasamningsins ásamt fylgiskjölum.
Launabreytingar 2015:
A. 1. október 2015 hækka öll laun í launatöflu SSF um kr. 25.000. Laun þeirra sem taka laun samkvæmt launatöflunni hækka þannig um 4,5% og upp í 8,5%, hærra fyrir þá sem taka laun samkvæmt lægri launaflokkum. Nýjar launatöflur fylgja samningunum fyrir hvert ár.
B. Starfsmönnum utan launatöflu, sem hófu störf fyrir 1. febrúar 2014 eru tryggð lágmarkslaunaþróun á tímabilinu frá 2. febrúar 2014 til 30. september 2015 samkvæmt meðfylgjandi launaþróunartöflu (sjá fylgiskjal). Hafi starfsmaður ekki notið lágmarkslaunaþróunar skulu laun hans hækka 1. október 2015 svo henni séð náð. Hækkun launa og launatengdra liða samkvæmt þessu ákvæði getur aldrei verið lægri en 3,2 prósent. Hækkanir á tímabilinu vegna starfsaldurshækkana (gr. 1.1.5) og jafnlaunaátaks 2014-2015 koma ekki til frádráttar launaþróunartryggingu.
C. Laun og launatengdir liðir starfsmanna sem hófu störf á tímabilinu 1. febrúar 2014 til 31. desember 2014 hækka um 3,2 prósent frá 1. október 2015.
D. Starfsmenn sem hófu störf á tímabilinu 1. janúar 2015 til 30. apríl 2015 og eru enn í starfi, og eiga ekki rétt á launabreytingum 2015 skv. kjarasamningi eða ráðningarsamningi, geta farið fram á viðtal við yfirmann um starfskjör sín.
E. Starfsmenn sem hafa starfað í 6 mánuði eða lengur og eiga rétt á launabreytingum samkvæmt töluliðum 1-3 hér að framan fá eingreiðslu krónur 300.000 m.v. fullt starf á tímabilinu 1. maí 2015 til 30. september 2015 (kr. 150.000 skv. kjarasamningi + kr. 150.000 í sérstakri bókun). Greiðlan er fyrir afturvirkni kjarasamninga og aðra kjaraliði samnings. Greiðslan er hlutfallsleg m.v. starfshlutfall og starfstíma. Orlof er innifalið í greiðslunni. (Lögbundið fæðingarorlof og veikindi teljast til starfstíma skv. kjarasamningi SSF).
Launabreytingar 2016
A. Starfsmönnum sem hófu störf hjá launagreiðanda fyrir 1. maí 2015 eru tryggð 5,5% lágmarkslaunaþróun á tímabilinu 2. október 2015 til 30. apríl 2016, að lágmarki kr. 15.000 á mánaðarlaun fyrir dagvinnu. Kauptaxtar kjarasamnings taka sömu hækkun, 5,5% (ný launatafafla). Hækkanir á tímabilinu vegna starfsaldurshækkana (gr. 1.1.5) og jafnlaunaátaks koma ekki til frádráttar launaþróunartryggingu.
B. Starfsmenn sem hófu eða hefja störf á tímabilinu 1. maí 2015 til loka desember skulu hækka um 3,2% frá 1. maí 2016.
Launabreytingar 2017
Þann 1. maí 2017 hækka öll laun og launatengdir liðir um 3,75%. Kauptaxtar kjarasamnings taka sömu hækkunum.
Launabreytingar 2018
Þann 1. maí 2018 hækka öll laun og launatengdir liðir um 2,50%. Kauptaxtar kjarasamnings taka sömu hækkunum.
Kauptaxtar
Í stað áður gildandi kauptaxta koma nýir sem eru hluti kjarasamnings samkvæmt fylgiskjali. Kauptaxtar gilda frá 1. október 2015, 1. maí 2016, 1. maí 2017 og 1. maí 2018.
Desemberuppbót verður 78.000 árið 2015, 82.000 árið 2016, 86.000 árið 2017 og 89.000 árið 2018.
Orlofsuppbót verður 42.000 árið 2015, 44.500 árið 2016, 46.500 árið 2017 og 48.000 árið 2018.
Styrktarsjóður SSF
Fyrirtækin munu hækka framlag sitt í Styrktarsjóð SSF um 40% eða úr 0,5% af launum uppí 0,7 af launum árið 2017. Þetta á aðtryggja að sjóðurinn geti áfram staðið við dagpeningagreiðslur og styrki sem hann hefur veitt félagsmönnum undanfarin ár.
Bókanir
Ýmsar bókanir eru í kjarasamningnum, en þær má lesa í Kjarasamningur 2015 (sjá fylgiskjal).
Aðal bókunin er um samningsforsendur, en þær eru þær sömu og hjá öllum öðrum stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði. Kjarasamningurinn hvílir á þremur meginforsendum, að kaupmáttur launa aukist á samningstímanum, að launastefna samningsins verði stefnumótandi fyrir aðra kjarasamninga og að ríkisstjórnin standi við sína yfirlýsingu (sjá fylgiskjal).
F.h. samninganefndar SSF,
Friðbert Traustason, formaður SSF.
Fylgiskjöl:
Kjarasamningur 2015-2018 skýringar
Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands vegna aðgerða til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum markaði: Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands 2015.