skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Gefur kost á sér til formennsku SSF

Gefur kost á sér til formennsku SSF

Þing Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) verður haldið í mars 2016. Þingið er haldið þriðja hvert ár og er æðsta vald samtakanna en þar skal bera upp öll veigamikil mál sem teljast stefnumótandi fyrir SSF. Á þinginu eru ný aðildarfélög tekin formlega inn í samtökin, skýrsla stjórnar borin upp til samþykktar og kosið í stjórn samtakanna svo fátt eitt sé nefnt.

Friðbert Traustason

Friðbert Traustason

Í afmælisriti SSF sem kom út í byrjun desember á þessu ári var farið yfir sögu félagsins m.a. með viðtali við núverandi formann SSF, Friðbert Traustason. Í viðtalinu við Friðbert var farið yfir sögu SSF í hans formannstíð en hann hefur gegnt formennsku sl. 20 ár. Í ljósi þess hve stutt er í næsta þing spurðum við hann einnig út í framtíð SSF og hvort hann gæfi áfram kost á sér til formennsku. „Ég hef starfað að félagsmálum allt frá því ég gekk í skátahreyfinguna á Flateyri þegar ég var 10 ára. Ég hef setið í stjórnum skólafélaga, íþróttafélaga, starfsmannafélaga, húsfélaga, stéttarfélaga bæði á Íslandi og erlendis, lífeyrissjóða og samtaka lífeyrissjóða og þannig má lengi telja. Ég tel mig vera á besta aldri, rétt sextugur og með mikla starfsorku. Síðastliðin 15 ár hef ég unnið á skrifstofu SSF sem formaður og framkvæmdastjóri. Allan þann tíma hef ég fengið gífurlegan stuðning frá félagsmönnum SSF, sem ítrekað tjá okkur starfmönnum SSF ánægju sína með þjónustu og frábært starf stéttarfélagsins. Ég er því ákveðinn í að bjóða mig áfram til starfa fyrir okkar frábæra stéttarfélag á þingi samtakanna í mars 2016“ segir Friðbert.

Friðbert telur að enn sé mikil barátta framundan við að tryggja atvinnu og tryggja réttindi og kjör félagsmanna SSF. Krafan um hagræðingu heldur áfram og einnig er að renna í garð mikill umbreytingatími í íslensku fjármálalífi og því telur Friðbert að það sé mikilvægt að innan SSF sé „reynslumikið baráttufólk til að stýra þeirri réttindabaráttu á vegum SSF nú sem áður.“ Hann segist eiga nóg inni þrátt fyrir að hafa verið formaður SSF í þennan tíma. „Ég hef þannig aflað mér mikillar reynslu á öllum þessum sviðum undanfarna áratugi. Ég er menntaður hagfræðingur frá Háskóla Íslands sem hefur hjálpað mér mikið í öllum þeim samningamálum sem ég hef sinnt fyrir hönd félagsmanna SSF.“ Á þeim tíma sem Friðbert hefur gegnt formennsku hefur SSF gert níu kjarasamninga og að hans mati þá er enginn vafi á því að „í flest öllum tilfellum hefur SSF gert betri kjarasamning, eða í það minnsta sambærilegan við önnur stéttarfélög á íslenskum vinnumarkaði. Þegar rauntölur launahækkana (Hagstofan) eru skoðaðar undanfarin ár er ljóst að til viðbótar umsömdum launahækkunum hafa margir félagsmenn SSF einnig fengið það launaskrið sem viðvarandi var flest árin. Kjarasamningur SSF þykir einn sá albesti á markaðnum hvað varðar starfstengd réttindi og kjör, og þannig viljum við hafa hann áfram um alla framtíð“ sagði Friðbert að lokum.

 

Hægt er að lesa viðtalið og blaðið í heild sinni hér.

Search