Niðurstöður kjarakönnunar SSF
Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) lét framkvæma kjarakönnun í febrúar sl. Samkvæmt könnuninni í ár kemur í ljós að kynbundinn launamunur er viðvarandi innan fjármálageirans. Vinnuálag eykst að mati félagsmanna, fjöldi greiddra yfirvinnustunda fer fækkandi, fastlaunasamningum fer fjölgandi og ánægja á vinnustað heldur áfram að hækka frá því árið 2013. Þá staðfesta niðurstöður að launaviðtöl skili árangri.
Um kjarakönnun SSF
SSF hefur á þriggja ára fresti látið framkvæma kjarakönnun á meðal félagsmanna SSF. Könnunin nýtist félagsmönnum og skrifstofu SSF við að veita upplýsingar um laun, vinnutíma og önnur atriði. Félagsmenn SSF nota upplýsingarnar til að kanna hvar þeir standa í samanburði við aðra innan stéttarfélagsins og geta þar með undirbúið launaviðtöl betur. SSF nýtir svo upplýsingarnar til að fylgjast með þróun á ýmsum atriðum er varða félagsmenn í baráttunni fyrir bættum kjörum.
Úrtak
Könnunin var framkvæmd dagana 4. – 25. febrúar sl. Notast var við trúnaðarmannakerfið við að dreifa bréfum til félagsmanna með leyniorðum að aðgangi vefsvæðisins þar sem könnunin fór fram. Alls var 3914 bréfum dreift og alls bárust 2893 svör sem gerir 74% svarhlutfall, sem er hærra svarhlutfall en í síðustu launakönnun. Af þeim sem svöruðu könnuninni voru 35,1 % karlar, sem er fjölgun frá síðustu könnun. Meðalaldur svarenda var 44 ára og fer hækkandi á milli kannanna. Mikill meirihluti svarenda var af höfuðborgarsvæðinu, n.t.t. 92% karla og 79% kvenna. Meðalstarfsaldur svarenda var 14 ár. Þá voru flestir úr hópi svarenda með fastráðningu og í fullu starfi, n.t.t. 92% svarenda voru í fullu starfi og 95% svarenda með fastráðningu.
Fastlaunasamningum fjölgar
Meirihluti svarenda, eða 57,1% þeirra segist fá greitt skv. launatöflu SSF. Þetta hlutfall fer lækkandi en árið 2004 sögðust 89,1% svarenda fá greitt skv. launatöflu. Þetta er í fullu samræmi við upplifun starfsfólks SSF sem hefur séð fastlaunasamningum fara fjölgandi undanfarin ár. SSF hefur hvatt sína félagsmenn til að sýna varúð við gerð fastlaunasamninga þar sem margir félagsmenn hafa kvartað undan auknu vinnuálagi í kjölfarið og fjölgun ógreiddra yfirvinnustunda. Könnunin staðfestir þennan grun þar sem 15,5% svarenda telja sig vinna fleiri stundir en þau fá greitt fyrir, en árið 2010 töldu 11,6% svarenda sig gera það. 36,8 % svarenda telja sig vinna jafn margar vinnustundir og þau fá greitt fyrir en árið 2010 var það hlutfall mun meira eða 44,8%. Að sama skapi fer þeim fjölgandi sem segja að þau fái ekki greitt fyrir yfirvinnu, alls 34,7% svarenda en voru 25,6% árið 2010.
Launaviðtölin borga sig
Ánægjulegasta niðurstaða launakönnunarinnar er án vafa sú vísbending að launaviðtölin séu að skila árangri. Aftur á móti virðist vera að félagsmenn SSF séu ragir við að óska eftir launaviðtali. Af þeim sem svöruðu könnuninni óskuðu 28,7 % eftir launaviðtali og fengu slíkt, 4% óskuðu eftir því en fengu ekki og 67,3% fóru ekki fram á launaviðtal. 7 af hverju 10 þeirra sem fóru í launaviðtal fengu kauphækkun og því má með sanni segja að launaviðtölin skili árangri. Þegar horft er í tölur þeirra sem óskuðu eftir launaviðtali kemur í ljós að karlmenn óska frekar eftir þeim og eins mælist munur á aldurshópum og menntunarstöðu þ.e. þeir sem eru yngri og menntaðri eru líklegri til að óska eftir launaviðtali.
Meðallaun
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er meðaltal heildarlauna félagsmanna í fullu starfi 692.000 kr. á mánuði sem er hækkun um 18% frá könnuninni árið 2013. Heildarlaun að jafnaði mælast hæst hjá félagsmönnum í kringum fertugt og mesta hækkunin á milli kannana var hjá aldurshópnum 45-54 ára en minnst hjá yngstu aldurshópunum.
Þegar horft er til meðatals dagvinnulauna kemur í ljós sambærileg hækkun og í heildarlaunum á milli kannana. Meðaltal dagvinnulauna er 647 þús. kr. sem þýðir 19% hækkun frá síðustu könnun. Samkvæmt könnuninni eru konur með 570 þús. kr. að meðaltali í dagvinnulaun en karlar 773 þús kr.
Meiri ánægja
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru félagsmenn ánægðari en árið 2013 með laun sín. Þeir sem segjast mjög eða frekar ánægðir með laun sín fjölgar um 6 prósentustig frá könnuninni árið 2013. Alls segjast 34,2 % svarenda mjög eða frekar ánægð með laun sín. 33,3% segjast hvorki ánægð né óánægð með laun sín. 32,5% segjast frekar eða mjög óánægð með laun sín en árið 2013 voru 42,2% svarenda mjög eða frekar óánægðir. Niðurstöður sýna að karlar eru almennt ánægðari með laun sín en konur og ánægjan mælist mest hjá aldurshópnum 35-44 ára en mest óánægjan er hjá 55 ára og eldri. Þá eru 36% þeirra sem eru ánægð búsett á höfuðborgarsvæðinu á meðan að ánægjan utan höfuðborgarsvæðisins mælist minni, um 27%. Almennt er aukin ánægja með laun eftir því sem menntun eykst og mesta ánægjan með laun mælist hjá stjórnendum og tölvu- og kerfisfræðingum. Óánægjan mælist mest hjá gjaldkerum, riturum og fulltrúum.
Kynbundinn launamunur
Vinnustundum hefur fækkað frá því í kjarakönnuninni árið 2010 að meðaltali um tvær stundir á mánuði. Karlar í fullu starfi unnu fleiri stundir að jafnaði en konur eins og í síðustu könnun en munurinn hefur dregist saman, miðað við fjölda vinnustunda í janúar þá unnu karlar 172,1 vinnustund en konur 168,9 vinnustundir.
Ef rýnt er í tölur varðandi launakjör kynjanna kemur í ljós að kynbundinn launamunur fari ekki minnkandi. Í 34 af 38 starfsheitum eru karlar með hærri laun en konur. Meðal fólks í fullu starfi fengu konur að jafnaði greidd 12,9% lægri heildarlaun þegar búið var að taka tillit til aldurs, menntunar, starfsaldurs og starfsstéttar.
Álag eykst
Spurt var hvort viðkomandi teldi álag í vinnunni hafa aukist, haldist óbreytt eða minnkað á sl. 12 mánuðum. Samkvæmt niðurstöðunum þá fjölgar þeim sem telja að álagið hafi farið vaxandi frá því árið 2013 um 6%. Alls töldu 61,6% svarenda að álagið hefði aukist sl. 12 mánuði, 35,1% töldu það óbreytt en einungis 3,3% töldu það hafa minnkað.
Meiri ánægja
80% svarenda segjast ánægð í starfi sem er aukning úr 75% árið 2013. 14,7% segjast hvorki ánægð né óánægð í starfi nú og 5,7% svarenda segjast óánægð í starfi.
Ánægja með SSF
Samkvæmt niðurstöðum nýta fleiri félagsmenn sér nú þjónustu SSF en áður. Spurt var hvort viðkomandi hefði nýtt sér þjónustu SSF sl. 12 mánuði. Úr hópi svarenda sögðust 56,9% hafa nýtt sér þjónustuna en 43,1% sögðust ekki hafa nýtt sér hana. Konur nýttu sér þjónustuna meira en karlar og þeir sem eru eldri nýta sér hana frekar en þeir sem eru yngri.
76,6% svarenda sögðust ánægð með þjónustu SSF sem er fjölgun úr um 73% árið 2013. Konur eru ánægðari með SSF en karlar en 82% kvenna sögðust ánægðar á meðan 68% karla sögðust ánægðir. 20,5% sögðust hvorki ánægðir né óánægðir með þjónustu SSF og 2,9% sögðust óánægð. Eftir því sem menntun félagsmanna er minni þá eru þeir almennt ánægðari með þjónustu SSF skv. niðurstöðunum.
Meðal þeirra sem nýttu sér þjónustu SSF á árinu 2015 eru rúmlega 9 af hverjum 10 ánægðir.
Launakönnun í heild má nálgast hér: Launakönnun SSF 2016
Vinningshafar happdrættis
Þátttakendur könnunarinnar fóru sjálfkrafa í pott og urðu um leið þátttakendur í happdrætti á meðal félagsmanna. Dregið var úr lykilorðum svarenda en leyniorðin fylgdu bréfi til félagsmanna þar sem hvatt var til þátttöku í könnuninni. Til að nálgast vinninginn er nauðsynlegt að framvísa bréfinu þar sem leyniorðið er gefið upp á skrifstofu SSF, Nethyl 2e.
Hér að neðan eru vinningsnúmer þeirra 20 heppnu sem dregnir voru út úr innsendum svörum (vinninga skal vitja innan 6 mánaða):
SF4D2P8L5 |
SFNX4P5UK |
SF9TSFHAK |
SF4Z8PRWS |
SFPZHQ3B6 |
SFKBSVG5T |
SF4W9GJRM |
SFHRA78PT |
SFQPS8H9C |
SFH7PLTUX |
SFEKCYW32 |
SFRPDVE67 |
SFAHL6W7Y |
SFS5BAPYT |
SF8MK5E3X |
SF7ALDG3K |
SF3G7Z96R |
SFHVQKYF5 |
SFGUESTDH |
SFCTM8S7P |