Skelfilegar fréttir af uppsögnum hjá Arion banka
Í gær, miðvikudaginn 28. september, var 46 starfsmönnum sagt upp störfum hjá Arion banka. Flestir þeirra störfuðu á stærsta sviði bankans, viðskiptasviði. Ríflega 800 manns starfa hjá Arion banka, meirihlutinn konur.
Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir þetta skelfilegar fréttir. „Þarna er verið að segja upp sex prósent af heildarfjöldanum í einu lagi.“ Hann bendir á að frá bankahruninu árið 2008 séu um 30% af starfsmönnum bankanna búnir að missa vinnuna. „Við reynum eins og við getum að aðstoða fólkið á alla lund sem okkur er kleift,“ segir Friðbert ennfremur. Hann bendir félagsmönnum SSF á sjóði félagsins og hvetur þá til að nýta sér lögfræðiaðstoð og ráðningarstofur sem félagið er í samstarfi við.