skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

67 ára reglan?

67 ára reglan?

Að undanförnu höfum við hlustað á ráðamenn þjóðarinnar á Alþingi, á vinnumarkaði og í stjórnum lífeyrissjóða, úttala sig um nauðsyn þess að hækka lífeyristökualdur.  Áætlun er um að hækka ,,viðmiðunaraldur“ til töku lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum úr 67 árum í 70 ár í áföngum á næstu 12-24 árum.  Svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins höfðu sæst á að þetta ferli tæki 24 ár en síðasta ríkisstjórn lagði fram frumvarp um 12 ára aðlögunartíma.

Hvorugt er þó samþykkt enn sem komið er.  Ástæður fyrir hækkun lífeyristökualdurs eru nokkrar.  Lengri meðal lífaldur Íslendinga vegur þar mest, skortur á vinnuafli er einnig nefnt og síðast en ekki síst þörfin til að efla og auka möguleika lífeyriskerfisins til að standa við lagabundin loforð um lífeyri þegar starfsævi lýkur.

Breytt hugarfar atvinnurekenda

Allt eru þetta góð og gild rök, en það vantar algjörlega einn mikilvægasta þáttinn inn í þessa umræðu og áætlanir.  Eru atvinnurekendur sem í orði styðja hækkun lífeyristökualdurs tilbúnir til að axla ábyrgðina og tryggja öllum starfsmönnum áframhaldandi störf fram til a.m.k. 70 ára aldurs?

Sérstakar reglur innan fjármálafyrirtækja

Í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar, á þjóðarsáttarárunum, var veruleg fækkun starfa á fjármálamarkaði, vegna samdráttar í samfélaginu en þó helst vegna sameiningar fyrirtækja á bankamarkaði.  Á fjórum árum fækkaði viðskiptabönkum úr sjö í þrjá með tilheyrandi fækkun starfa (útibúa) í kjölfarið.

Á þessum árum var meiri hluti starfsmanna bankanna með lífeyrisréttindi sem voru hliðstæð réttindum opinberra starfsmanna í B-deild LSR.  Starfsmenn gátu því hætt á aldursbilinu 60-67 ára gamlir með sæmileg og allt að góð lífeyrisréttindi.  Í núgildandi réttindakerfi lífeyrissjóðanna, sem félagsmenn SSF eig aðild að, fylgir því veruleg ævilöng skerðing ef lífeyristaka hefst fyrir 67 ára aldur.

Í þessum aðstæðum, á árunum 1990-1995, tóku bankarnir upp þá ,,reglu“ að starfsmenn hættu í vinnu eigi síðar en 67 ára gamlir.  Reglan varð svo rík að allt frá 1995 hafa bankarnir ekki talið sér skylt að segja starfsmönnum upp með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti þar sem allir starfsmenn þekki 67 ára regluna.

67 ára reglan er úrelt

Ef áætlanir stjórnvalda og vinnumarkaðarins um 70 ára lífeyristökualdur ganga eftir þá verða bankar (og fjármálafyirrtækin almennt) að breyta þessum aldursmörkum starfsloka og hækka þau úr 67 í 70 ár.  Fjármálafyrirtækin verða að sýna fulla ábyrgð, enda eru þau aðilar að Samtökum atvinnulífsins (SA) sem vinnur eindregið að hækkun lífeyristökualdurs í 70 ár.

Í dag eru félagsmenn SSF um 4.200.  Dreifing á aldursbil er afar jöfn og góð eða um og yfir 500 manns á hvert 5 ára aldursbil frá 25 ára til og með 60 ára.  Á aldursbilinu 61-65 ára eru hins vegar um 250 starfandi félagsmenn SSF og á aldursbilinu 66-70 ára eru aðeins 70 starfsmenn samtals hjá öllum fyrirtækjunum innan raða SSF!

Friðbert Traustason, formaður SSF

Leiðari úr desemberhefti SSF blaðsins

Search