Nú má ekki sofna á verðinum
„Ég er 46 ára gömul, alin upp á Seltjarnarnesi. Leiðin lá í Verzlunarskóla Íslands og þaðan í Háskóla Íslands en þar lauk ég BS-prófi í stærðfræði. Ég lauk síðan MS-prófi og Ph.D. í verkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku. Ég hef unnið á fjármálamarkaðnum frá árinu 2007 og í Seðlabankanum frá 2009, lengst af sem aðstoðarframkvæmdastjóri og nú sem framkvæmdastjóri.”
Hvað felst í starfi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika?
„Fjármálastöðuleikasvið Seðlabanka Íslands hefur margþætt hlutverk en megin viðfangsefnið felst í að greina og meta áhættu í fjármálakerfinu. Tvisvar á ári er slíkt mat gefið út með formlegum hætti í ritinu Fjármálastöðugleiki sem ég ritstýri og þar er farið yfir styrkleika og veikleika fjármálakerfisins. Greining er framkvæmd á rekstarniðurstöðu bankanna, lausafjárstaða og fjármögnun skoðuð og áhætta því tengdu metin. Ítarleg greining er gerð á stöðu heimila og fyrirtækja en staða heimila og fyrirtækja segir til um getu þeirra til að greiða af skuldum sínum og er þannig ein birtingarmynd útlánaáhættu bankanna. Einnig er litið til ójafnvægis í þjóðarbúskapnum sem getur haft áhrif á fjármálakerfið ekki síst fjármagnsstreymi yfir landamærin auk þess að greina stöðuna á fjármálamarkaði almennt,” segir Harpa.
„Einu sinni á ári framkvæmum við álagspróf en þá er teiknuð upp ólíkleg en samt raunsæ mynd af atburðum sem gætu gerst í hagkerfinu og svo er notað sérstakt álagsprófslíkan sem metur hvaða áhrif slík þróun gæti haft á bankakerfið. Það segir okkur hversu viðkvæmir bankarnir eru fyrir hinum ýmsu áhættuþáttum. Við sjáum einnig um að setja reglur um laust fé, fjármögnun og gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja og höfum eftirlit með þeim reglum. Fjármálastofnanir skila inn skýrslum eftir þessum reglum sem bæði eru notaðar til þess að hafa eftirlit með að reglunum sé fylgt og til að meta áhættuna af þessum tilteknu þáttum. Seðlabanki Íslands veitir umsagnir um fjöldann allan af lagafrumvörpum og hafi slík frumvörp snertiflöt við fjármálastöðugleika þá eru þau unnin undir minni umsjá.”
„Haustið 2014 tók fjármálastöðugleikaráð (FSR) til starfa en ráðið getur beint tilmælum til stjórnvalda um aðgerðir sem eru til þess fallnar að styðja við fjármálastöðugleika. Í ráðinu sitja fjármálaráðherra (formaður), seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ráðið hittist fjórum sinnum á ári og byggir tillögur sínar á greiningu og mati frá kerfisáhættunefnd (KÁN). Í kerfisáhættunefnd sitja seðlabankastjóri (formaður), forstjóri Fjármálaeftirlitsins (varaformaður), aðstoðarseðla- bankastjóri, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og utanaðkomandi sérfræðingur skipaður af fjármálaráðherra. Kerfistáhættunefnd hittist einnig fjórum sinnum á ári á löngum og viðamiklum fundum fundum en þá sitja ennig þrír áheyrnarfulltrúar: ég, einn aðili frá FME og annar frá fjármálaráðuneytinu. Greining og áhættumat fyrir fundi kerfisáhættunefndar er unnið á sviði fjármálastöðugleika og í Fjármálaeftirlitinu og er efnið kynnt fyrir nefndinni. Umsýsla fyrir kerfisáhættunefnd er í Seðlabankanum á sviði fjármálastöðugleika og er þetta orðið viðamikill þáttur í okkar starfsemi. Byggt á greiningu og mati frá kerfisáhættunefnd hefur fjármálastöðuleikaráð beint tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að hækka eiginfjárkröfur á fjármálastofnanir með því að setja á svokallaða eiginfjárauka. Aukarnir eru nokkrir og leggjast mismunandi á stofnanir, mest á stóru kerfislega mikilvægu bankana en þar eru þeir sem stendur samtals 6,25% ofan á aðrar eiginfjárkröfur. Allt þetta er liður í því að efla getu bankanna til þess að standast áföll.
Þá stundum við rannsóknir á sviði þjóðhagsvarúðar en það er sá hluti fjármálastöðugleika sem snýr að áhættum í kerfinu í heild frekar en áhættum í einstaka stofnunum. Rannsóknirnar snúa t.d. að því hvernig við getum best metið þá áhættu sem er til staðar og hvernig við getum lágmarkað þessa áhættu með því að beita réttum þjóðhagsvarúðartækjum hverju sinni, en þjóðhagsvarúðartæki er regla sem er sett með það markmiði að verja þjóðina gegn hugsanlegum áföllum. Í henni getur falist að setja auka eiginfjárhlutföll, sérstök hlutföll um laust fé í erlendum gjaldmiðlum eða lágmarks veð- setningarhlutfall, allt eftir því hver áhættan er hverju sinni,” segir Harpa.
„Nokkuð stór liður í mínu starfi er að kynna mat okkar á fjármálakerfinu, innan og utan bankanna og utan landssteinanna auk þess að vera tengiliður bankans í hinum ýmsu samstarfsverkefnum á erlendum vettvangi. Ég hitti marga erlenda aðila eins og matsfyrirtækin, alþjóðagjaldeyrissjóðinn og fleiri.”
Hver er þín sýn á fjármálakerfið um þessar mundir?
„Fjármálakerfið stendur traustum fótum eins og er. Í aðdraganda losunar fjármagnshafta hafa bankarnir byggt upp varasjóði af lausu fé til þess að geta staðið straum af umtalsverðum úttektum innlána ef til þess kæmi. Þeir hafa einnig sterka eiginfjárstöðu, vanskilahlutföll hafa lækkað og eru komin í nokkuð gott horf. Fyrirtæki og heimili standa nokkuð traustum fótum, skuldir hafa lækkað og tekjur aukist og því er getan til að greiða af lánum nokkuð góð og því er útlánaáhætta hófleg. Þenslumerki eru þó farin að gera vart við sig, húsnæðisverð hefur t.d. hækkað hratt en það er oft undanfari skuldaaukningar. Þjóðin hefur tekjur af ferðamannaþjónustu sem aldrei fyrr og því þarf að fylgjast vel með hvort farið sé of geyst í fjárfestingar eða þær byggðar á of bjartsýnum spám, svo eigum við ekki bara að segja að ganga skuli hægt um gleðinnar dyr?”
Þannig að þú lítur Bjartsýn til framtíðarinnar?
„Já, mér líst bara vel á framtíðina. Hinu nýja starfi fylgir mikil ábyrgð en ég tek við góðu búi. Sigríður Benediktsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri, hefur byggt upp sterka og góða deild og mun ég halda áfram því góða starfi. Nú, þegar fjármálakerfið er sterkt og hagkerfið í uppsveiflu, má ekki sofna á verðinum heldur þarf ávallt að vega og meta hvernig og hvenær viðsnúningur verður og þá er það okkar að hafa búið svo um hnútana að lendingin verði sem mýkst.”
Viðtalið birtist fyrst í SSF blaðinu í desember 2016