Vel heppnað NFU þing
Þing NFU samtakanna (Nordic financial unions) lauk í gær, miðvikudaginn 21. Júní, en þingið var haldið í Reykjavík dagana 20. og 21. júní. Um 100 félagsmenn aðildarfélaga NFU auk fyrirlesara og gesta mættu á þingið. Að NFU standa samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Íslandi og Finnlandi.
Á þinginu var m.a. fjallað um áhrif ESB löggjafar á norrænu félögin s.s. kjarasamninga, réttindi félagsmanna, viðskiptavernd og fleira. Benedikt Jóhannesson,
fjármálaráðherra, fjallaði um efnahagslega stöðu Íslands og það hvaða áhrif efnahagshrunið hefði haft á þjóðfélagið. Þá lagði Benedikt áherlsu á aukna samvinnu norrænu landanna og talaði fyrir inngöngu Íslands í ESB sem vakti athygli fundargesta. Hann sagðist vonast til þess að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðslu í lok kjörtímabilsins um það hvort hefja ætti aðildarviðræður á ný.
Philip Jennings, ávarpaði þingið, en hann er forseti UNI Global, sem eru heildarsamtök stéttarfélaga á heimsvísu og koma fram fyrir hönd fleiri en 20 milljón félagsmanna í
yfir 900 aðildarfélögum. Philip sagði að norræna stéttarfélagsmódelið væri öfundsvert og stæði mjög framarlega í heiminum í ýmsum samanburði m.a. hvað varðar fjölda starfsmanna sem tilheyra stéttarfélögum og hafa kjarasamninga.
Þá var einnig fjallað um breyttan veruleika fjármálaþjónustu með tilkomu tækninýjunga og internetlausna og framtíð fjármálaráðgjafar.