Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns
Upp úr 1970 hófu Seðlabanki Íslands og Þjóðminjasafn Íslands samvinnu um að koma upp sérstöku safni til að sinna varðveislu
innlendrar og erlendrar myntar og sögu íslensks verðmiðils. Var í fyrstu um óformlegt samkomulag að ræða en formlegur samningur um stofnun og rekstur Myntsafns Seðlabanka og Þjóðminjasafns var staðfestur af menntamálaráðherra 28.janúar 1985. Í samningnum er kveðið á um að bæði söfnin leggi til safnsins myntsöfn sín sem þegar eru til, þó þannig að jarðfundnar myntir og sjóðir sem hafa aðalgildi sem fornminjar skuli áfram vera í Þjóðminjasafni. Seðlabankinn sér safninu fyrir húsnæði og annast rekstur þess.
Stofninn í myntsafninu er íslensk mynt og seðlar, erlendir peningar frá fyrri öldum, einkum þeir sem varða íslenskar heimildir, og auk þess yngri gjaldmiðill helstu viðskiptaþjóða Íslendinga. Við þennan meginhluta safnsins er aukið öðrum þáttum sem til myntfræði heyra svo sem minnispeningum, heiðurspeningum og orðum. Meðal efnis af því tagi eru heiðurs- og verðlaunapeningar margra þekktra Íslendinga, allt frá heiðurspeningi danska bústjórnarfélagsins, sem veittur var Skúla Magnússyni landfógeta árið 1776, til Nóbelsverðlaunapenings Halldórs Laxness 1955, sem hann færði myntsafninu að gjöf í febrúar 1985, enn fremur allar gerðir hinnar íslensku fálkaorðu og danska dannebrogsorðan, gjöf Margrétar II Danadrottningar til safnsins.
Eitt sérsafn sem komið er úr Þjóðminjasafninu ber að nefna sérstaklega en það er gjöf dönsku bræðranna Michael C.F. Lund læknis og Carl F. Lund óðalsbónda. Í Lundsafni eru um 960 forngrískar og rómverskar myntir og um 1600 myntir frá miðöldum og yngri.
Í Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns eru nú um tuttugu þúsund myntir og um 5 þúsund seðlagerðir. Til hliðar við safnið hefur verið komið upp nokkru bóka- og tímaritasafni um myntfræði og skyld efni.
Myntsafnið hefur frá upphafi verið til húsa í Einholti 4. Þar var lengi safnsýning í sérstökum sal. Í árslok 2005 var sýningin tekin niður og sýningarsalnum lokað. Ný yfirlitssýning var opnuð 15. júní 2006 í nýju sýningarrými á fyrstu hæð í húsnæði Seðlabankans að Kalkofnsvegi 1.
Meðal efnis á grunnsýningu safnsins eru elstu peningaseðlar sem heimilt var að nota hér á landi, danskir kúrantseðlar frá 18. öld, og síðan allar gerðir innlendra seðla frá upphafi íslenskrar seðlaútgáfu 1886, auk þess íslensk myntslátta frá 1922 þegar hún hófst. Auk hins opinbera verðmiðils er einnig sýnt safn íslenskra vöruseðla og brauðpeninga og annað efni sem fellur að efnissviði safnsins.
Unnið er að því að setja safnið upp í upplýsingakerfinu Sarp sem er menningarsögulegt gagnasafn og aðgengilegt almenningi.
Myntsafnið hefur tekið þátt í sýningum utan bankans og staðið að útgáfu nokkurra myntrita.
Merkilegu safni Íslandsbanka komið fyrir í Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns
Fyrr á þessu ári afhenti Íslandsbanki Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns allt sitt mynt- og seðlasafn. Í safninu eru 1.300 munir allt frá árinu 1675 til ársins 2000. Nú stendur yfir vinna við frágang safnsins og þarf að vanda vel til verka svo varðveisla safnsins verði vel tryggð.
Strax var ákveðið að kaupa nýjar umbúðir fyrir seðlasafnið þar sem upprunalegu umbúðirnar voru orðnar gamlar og úr sér gengnar. Mikilvægt er að nýju umbúðir séu vandaðar og sýrufríar og standist kröfur um langatímavarðveislu, en elstu seðlarnir í Íslandsbankasafninu eru frá 1792. Eftir að hafa skoðað umbúðir hjá nokkrum framleiðendum varð breskt fyrirtæki fyrir valinu, en það framleiðir og hannar allar sínar vörur í samstarfi við Þjóðminjasafn Bretlands.
Undanfarið hefur staðið yfir vinna við umpökkun seðlasafnsins og má segja að umbúðirnar hafi staðist allar kröfur. Verkefnið er unnið á þann hátt að hver seðill er myndaður og litaleiðréttur áður en hann fær sitt eigið safnanúmer og sinn sérstaka stað í nýju öskjunum.