Enn af kjarasamningum
Samninganefndir SSF og SA (SFF) funduðu fimmtudaginn 21. febrúar í húsakynnum SSF. Þann dag slitu Efling, VG, VLFA og VR samningaviðræðum við SA þrátt fyrir verkstjórn Ríkissáttasemjara. Allt stefnir nú í verkfallsboðun og í framhaldinu verkföll á almennum vinnumarkaði en það hefur ekki gerst síðast liðin 25 ár hjá Eflingu og VR.
Staðan á vinnumarkaðinum er því í hnút og engar efnislegar viðræður verða um launalið kjarasamninga á næstunni ef fer sem horfir. Fundir í samninganefndum snúa því meira að sérmálum, í tilfelli SSF eru það umræðan um sveigjanlegan vinnutíma, til hagsbóta fyrir báða aðila, og fyrirkomulag fastlaunasamninga. Hvort tveggja kallar á mjög nákvæma skoðun.
Um 150 kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði losna í mars/apríl 2019. Kröfur BSRB eru ekki ólíkar kröfum SGS (Eflingar) sem eru samkvæmt viðtölum við forsvarsmenn; styttri vinnuvika og hækkun lægstu launa. BHM og önnur stéttarfélög háskólamanna hjá því opinbera leggja hins vegar áherslu á að meta menntun til launa.
Það er alveg ljóst að margir forystumenn stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði telja óráð að ganga frá kjarasamningum sinna umbjóðenda áður en ríkið og sveitarfélög hefja viðræður við opinbera starfsmenn. Vinnudeilurnar geta því hugsanlega staðið yfir í margar vikur og jafnvel mánuði.
En markmiðið er að ná kjarasamningum og þannig hafa deilurnar oftast endað.