skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Staða kjaraviðræðna SSF og SA (SFF).

Staða kjaraviðræðna SSF og SA (SFF).

Fulltrúar úr samninganefndum SSF og SA (SFF) funduðu í gær, þriðjudaginn 9. apríl, og ræddu kjarasamninga. Á fundinum kom skýrt fram að Samtök atvinnulífsins (SA) vilja að öll stéttarfélög, sem ósamið er við, semji á sömu nótum og Starfsgreinasambandið (SGS) og verslunarmenn (LÍV) undirrituðu 3. apríl 2019. Aðalatriðið í þeim samningum er lágmarks launahækkun sem skilar um 17.000 krónum/mánuði ár hvert  frá 1.4.2019 til 1.1.2022. Dagsetningar launahækkana eru 1.4.2019, 1.4.2020, 1.1.2021 og 1.1.2022. Samanlögð lágmarkshækkun launa er 4×17.000 = 68.000 krónur sem komin verður til viðbótar núverandi launum þann 1.1.2022.

Umsamdar launatöflur, sem hjá ASÍ félögunum eru ansi lágar, fá viðbótarhækkun á samningstímanum. Ef hagvöxtur á mann verður á bilinu 1-3% þá kemur aukalega hækkun launa á bilinu 2.250 – 9.750 kr./mánuði. (strípuð taxtalaun hækka meira vegna hagvaxtarviðmiðs). Ríkisstjórnin hefur lofað allt að 10.000 lækkun tekjuskatts/mán. á samningstímanum, en nánari útfærsla þess loforðs liggur ekki fyrir.

Hér er hægt að skoða kynningu SA á kjarasamningi þeirra við SGS og LÍV. Þessi kjarasamningur er nú kominn í atkvæðagreiðslu hjá þeim stéttarfélögum sem undirrituðu hann. Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni á að verða ljós 23 apríl. Nauðsynlegt er að fyrir liggi hvað launakostnaður fyrirtækja innan SA hækkar árlega við þennan nýundirritaða kjarasamning við ASÍ félögin.

SSF er með eigin kröfugerð og heldur áfram að funda með SA og SSF næstu daga um þær kröfur. Þar á meðal er samspil fastlaunasamninga (yfirvinna ekki greidd) og hugsanleg stytting vinnuvikunnar. Það er til lítils að semja um að stytta vinnudag um 9 mínútur fyrir þá starfsmenn sem eru með ótilgreindan vinnutíma á bak við föst mánaðarlaun.

 

Search