Endurskoðun á fyrirkomulagi prófs til verðbréfaviðskipta
Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) hafa sent Fjármála- og efnahagsráðuneytinu bréf þar sem óskað er eftir beinni aðkomu að vinnu við endurskoðun á fyrirkomulagi prófs til verðbréfaviðskipta. SSF telur æskilegt að samtökin skipi fulltrúa í nefnd sem mun sjá um endurskoðunina. Samtökin telja þessa beiðni réttmæta á þeim forsendum að stór hluti þeirra sem vinna á grundvelli þessarar vottunar eru félagsmenn SSF.
SSF telur það sem ófrávíkjanlegt skilyrði að eldri réttindi haldi gildi sínu þrátt fyrir að nýtt fyrirkomulag verði tekið upp við próf í verðbréfaviðskiptum. Sé um að ræða nýja þætti í náminu sem nauðsynlegt sé að votta með einhverskonar prófum þá verði þeim sem vinna samkvæmt eldri réttindum gert mögulegt að standast þær kröfur í gegnum endurmenntun. Núverandi próf í verðbréfaviðskiptum er afar yfirgripsmikið og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að eldri réttindi haldi gildi sínu.
SSF leggur áherslu á að við útfærslu á endurmenntun verði horft til þess að fyrirkomulagið verði ekki íþyngjandi, sér í lagi hvað varðar kostnað. Samtökin telja að kostnaðurinn eigi alfarið að vera vinnuveitandans og telur rétt að horft verði til fyrirkomulags við Vottun fjármálaráðgjafa í þeim efnum. Þá er mikilvægt að endurmenntun fari alfarið fram á vinnutíma enda sé um að ræða réttindi sem eru beintengd starfi viðkomandi, sem ekki er eðlilegt að gerð verði krafa um að sé sinnt utan vinnutíma.
Bréfið má sjá hér.