Fjölmargir hafa nýtt sér aðstoð Hagvangs í boði SSF
Hluti þeirra félagsmanna sem missti vinnuna í lok september í hópuppsögnum hefur þegar fengið tilboð um starf. „Sem betur fer virðist okkar fólki ganga nokkuð vel að fá vinnu. Við höfum boðið ókeypis aðstoð og ráðgjöf við atvinnuleit í gegnum Hagvang, á kostnað stéttarfélagsins. Fjölmargir af þeim sem misstu vinnuna í haust hafa nýtt sér það, þá var þó nokkur hópur sem virðist hafa gengið vel að leita sér að nýju starfi. Hjá þessum fyrirtækjum var um að ræða stóran hóp vel menntaðra sérfræðinga. Vinnumarkaðurinn virðist enn vera opinn fyrir fólki sem er með slíka menntun og reynslu“ segir Friðbert Traustason, formaður SSF.
Hópur eldri starfsmanna viðkvæmur
„Það er hins vegar alltaf viðkvæmur hópur eldri starfsmanna sem á erfitt með að finna sambærilegt starf og því verða fyrirtækin að taka sérstakt tillit til þeirra starfsmanna við uppsagnir,“ segir Friðbert. Að hans sögn er fólkið með fjölbreytilega menntun. „Það hefur lært viðskiptafræði, hagfræði, lögfræði og einnig stærðfræði, tölvunarfræði, verkfræði, áhættustýringu og alls kyns fög sem nýtast annars staðar á vinnumarkaði,“ segir Friðbert. Hann segir að fólk með fjármálaþekkingu sé eftirsóknarverður starfskraftur einkum vegna agaðra og skipulegra vinnubragða. „Reynsla eldri starfsmanna er engu að síður vanmetin þáttur, einstaklingur sem hefur starfað um árabil innan fjármálageirans og jafnvel áratugi hefur gríðarlega þekkingu og hæfni í að bregðast við aðstæðum hverju sinni.“
Áfram hægt að nýta sér þjónustu Hagvangs
SSF hvetur félagsmenn sína til að nýta sér þjónustu Hagvangs sem allra fyrst. Hagvangur leggur metnað í að veita persónulega og góða þjónustu og farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þjónusta Hagvangs snýr m.a. að því að móta nýjan starfsferil, auðkenna styrkleika þína og nýta þá í væntanlegri starfsleit. Jafnframt er farið yfir ýmis hagnýt atriði sem nýtast í atvinnuleit, svo sem gerð ferilskrár, undirbúningur fyrir atvinnuleit og atvinnuviðtöl og fleira.
Hér er tengill á upplýsingablað frá Hagvangi þar sem finna má upplýsingar og tengiliði sem þjónusta félagsmenn SSF.