Heimavinna í Covid – hugleiðingar
Í löndunum í kringum okkur er verið að fást við þetta nýja fyrirbæri, heimavinnuna, alveg eins og hér. Margar spurningar eru uppi þegar atvinnurekandinn fer fram á að flytja vinnustaðinn og vinnuumhverfið yfir á heimili starfsmannsins. Hér eru nokkrar vangaveltur um þetta.
Afnot af húsnæði og aðstöðu – er eðlilegt að starfsmaðurinn útvegi það ókeypis?
Vinnuaðstaða (borð, stóll, tölva, skjár, net osfrv.), sem fyrirtækið útvegar við venjulegar aðstæður. Á það sama ekki að gilda um útstöðina á heimilinu, þ.e. að atvinnurekandinn útvegi frítt?
Hvað með hita, rafmagn og önnur útgjöld heima tengt vinnuaðstöðu, á starfsmaðurinn að bera þann kostnað?
Tryggingar skipta miklu ef maður slasast í heimavinnu. Hvar liggur t.d. skurðpunkturinn milli skyldutryggingar atvinnurekendans og heimilistryggingar starfsmannsins?
Margar spurningar eru uppi um matar og kaffitíma, t.d. tímalengd. Kjarasamningur kveður skýrt á um klukkutíma í mat ef ekki er mötuneyti á staðnum. Er hugsanlegt og eðlilegt að atvinnurekandi skaffi hráefni í mat eða láti senda mat heim til starfsmanna?
Ofan á þetta allt koma svo spurningarnar um félagsleg tengsl, einangrun, eftirlit og margt fleira.
Hvað heimavinnuna varðar erum við því enn á algerlega óplægðum akri enn sem komið er og þar eru fjöldamörg atriði sem finna þarf lausnir á.
Ari Skúlason, varaformaður SSF