Fjármálastarfsemi og sjálfbær þróun
Með sjálfbærri þróun er átt við þróun sem uppfyllir þarfir nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til þess að uppfylla sínar þarfir með sama hætti. Umræðan um sjálfbæra þróun hefur skipt miklu máli varðandi alla stefnumótun á síðustu árum.
Samþykkt heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á árinu 2015 og undirritun Parísarsamkomulagsins ári síðar áttu sinn þátt í því að þjóðir heims hafa margar sett sér markmið og fara út í aðgerðir til þess fást við þætti eins og loftslagsmál, fátækt og misrétti. Allt undir hatti sjálfbærni.
Norðurlöndin hafa langa og mikla reynslu af því að byggja þróun norræns samfélags á sjálfbærni og hafa þau lengi verið í fararbroddi þjóða heims í þeim efnum. Í ágúst 2019 sammæltust forsætisráðherrar Norðurlandanna um að stefna að því að Norðurlöndin yrðu sjálfbærasta svæði í heiminum á árinu 2030. Í yfirlýsingu þeirra var m.a. lögð áhersla á kolefnishlutleysi og þátttöku í heimsaðgerðum í loftlagsmálum. Yfirlýsing ráðherranna horfir þannig yfir allt UFS sviðið, um umhverfismál, félagsmál og stjórnarhætti (ESG á ensku) með sama hætti og alþjóðleg umræða fer fram um þessi mál.
Fjármálastarfsemin í lykilstöðu
Upp á síðkastið hefur umræðan um sjálfbæra þróun færst yfir á umræðu um sjálfbæra fjármálastarfsemi. Meginástæða þess er að menn hafa áttað sig á því að öll þessi mikilvægu verkefni og markmið geta ekki orðið að veruleika án þess að veruleg tilfærsla á fjármagni komi til, bæði í einkageiranum og hjá opinberum aðilum. Þannig hefur verið talað hefur um að brúa þyrfti fjárfestingarbil upp á u.þ.b. 180 ma. evra árlega til þess að ná markmiðum ESB í loftslags- og orkumálum og bilið sem þarf að brúa á heimsvísu varðandi nauðsynlegar fjárfestingar er 2,5 trilljónir dollara.
Þessar gífurlegu stærðir sýna hve stórt hlutverk fjármálamarkaðurinn þarf að leika á næstu árum og sýnir hvað fjárfestingarhliðin skiptir miklu máli í þessum efnum. Það er svo nýtt í málinu er að hér eftir þarf að líta til fleiri átta varðandi fjárfestingar en til hefðbundinna þátta, t.d. um arðsemi. Hér er um risastórt samfélagslegt verkefni að ræða þar sem allir, og þar með talin fjármálafyrirtækin, þurfa að horfa til allra þeirra samfélags- og félagslegu þátta sem eru inn í umræðunni um sjálfbærni.
Starfsmenn í lykilhlutverki
Sú staðreynd að fjármálageirinn þurfi að gegna mikilvægu hlutverki í vegferðinni um sjálfbæra þróun þýðir auðvitað að starfsmenn fjármálafyrirtækja fara sjálfkrafa inn í kjarna umræðunnar og fá stórt hlutverk í þróuninni. Það er ljóst að allar reglur fyrir fjármálageirann og þar með markmið og reglur um sjálfbær fjármál lenda á borðum starfsmanna í fjármálastarfsemi. Starfsmenn fyrirtækjanna gefa sífellt ráð og álit um þessi mál og flytja reynslusögur og ráð frá viðskiptavinum til fyrirtækjanna sem aftur eru notuð þegar þróa á mál áfram. Vegna þess að starfsmenn fjármálafyrirtækja taka beinan þátt í öllu sem gerist á fjármálamörkuðum í daglegum störfum sínum eru þeir hluti af eftirlitskerfi fjármálamarkaðarins, m.a. í baráttunni gegn skattsvikum og peningaþvætti.
Reglur skapa líka vandamál
Í kjölfar fjármálakreppunnar dældi ESB út mörgum nýjum reglum og viðmiðunum fyrir fjármálamarkaðinn með það að markmiði að auka neytendavernd og endurheimta traust almennings á fjármálakerfinu. Í hita leiksins var lítið hugað að því þá að skoða hvaða áhrif allar þessar nýju reglur hefðu á starfsmenn sem áttu að vinna eftir þeim og ná þeim markmiðum sem þær stefndu að. Reyndin hefur orðið sú að starfsmenn í fjármálageiranum hafa átt erfitt með að fóta sig í þessum reglugerðarheimi og þeim kröfum sem hann gerir til starfsmanna. Margir starfsmenn hafa þannig lent í ógöngum við að átta sig á því hvernig hægt væri að fylgja öllum nýjum reglum samtímis því að veita viðskiptavinum þá góðu þjónustu sem þeir fara fram á. Þetta sýnir nauðsyn þess að huga vel að því að það sé ekki nóg að setja nýjar reglur, heldur þurfi um leið að huga vel að því hvernig á að framkvæma þær. Í því sambandi skiptir máli að ráðfæra sig vel við starfsmenn og samtök þeirra, ekki síst þegar mikilvægi fjármálamarkaðarins verður svona mikill á vegi aukinnar sjálfbærrar þróunar.
Mikið að gerast í þessum efnum
Með sama hætti og nýjar reglur voru settar fyrir fjármálamarkaðinn í kjölfar fjármálakreppunnar hefur á síðustu árum verið unnið innan ESB að framkvæmdaáætlun til þess að fjármagna sjálfbæran vöxt. Þar er verið að ákvarða þau skref sem þarf til þess að búa til sjálfbæra fjármögnunaráætlun fyrir Evrópu. Markmiðið er að tengja fjármálamarkaðinn við þarfir hagkerfisins og tryggja um leið að lögð sé áhersla á umhyggju fyrir fólki og umhverfi.
Samhliða þessu hefur ESB sett upp eins konar flokkunarfræði varðandi fjárfestingar (taxonomy reglulation). Þar er verið að byggja upp aðferðafræði og samræma kröfur um hvað má flokka sem umhverfislega sjálfbærar fjárfestingar.
Við stefnum að því að fjalla frekar um allt þetta á næstunni hér á heimasíðu SSF.
Ari Skúlason,
Varaformaður SSF