Kostir og gallar heimaskrifstofu – 1. hluti
SSF hefur tekið saman og þýtt fjórar greinar norska netmiðilsins FriFagbevegelse sem allar fjalla um kosti og galla þess að vinna heiman frá
Vinnuveitendur auðvelda starfsfólki að setja upp heimaskrifstofu á tímum kórónaveiru
Á meðan sumir vinnuveitendur greiða fyrir ný skrifstofuhúsgögn og búnað leyfa aðrir starfsmönnum að stunda líkamsrækt á vinnutíma. Vinnuveitendur bjóða upp á ýmsar lausnir til að auðvelda starfsmönnum daglegt líf á heimaskrifstofunni.
Vinnuveitanda ber að tryggja að starfsmenn búi við öruggt vinnuumhverfi – einnig á heimaskrifstofunni. Þetta þýðir meðal annars að vinnuveitandinn skuli sjá til þess að vinnustaður, vinnubúnaður og vinnuumhverfi leiði ekki til óheppilegs líkamlegs álags á starfsmanninn. Reyndar er þó nokkur munur á því hvað fyrirtækin bjóða starfsmönnum sínum sem hafa þurft að nota eigið heimili sem vinnustað síðastliðið hálft ár. Hér eru nokkur dæmi um hvað fyrirtæki bjóða upp á:
Húsgögn og búnaður fyrir heimaskrifstofuna
Góð setustaða skiptir sköpum við skrifstofuvinnu. Mörg fyrirtæki hafa boðið starfsmönnum að sækja skrifstofustóla, tölvuskjái, lyklaborð og annan búnað á vinnustaðinn. Önnur fyrirtæki hafa keyrt búnaðinn heim til starfsmanna. Samkvæmt Forskerforum, málgagni samtaka háskólakennara og rannsakenda, hefur háskólinn OsloMet gert samning við flutningafyrirtæki sem keyrir húsgögn og búnað heim til starfsmanna sem geta ekki sótt munina sjálfir. Önnur fyrirtæki hafa innleitt áætlun fyrir starfsmenn sína sem gerir þeim kleift að kaupa nýjan búnað.
Norska viðskiptafréttablaðið Dagens Næringsliv birti frétt um að stærsta fyrirtæki Noregs, Equinor, komi til móts við starfsmenn vegna kaupa á nauðsynlegum búnaði fyrir heimaskrifstofuna með allt að 3.000 norskum krónum (sem samsvara tæplega 50.000 íslenskum krónum), en starfsmenn norskra stórfyrirtækisins Orkla fá styrk vegna kaupa á skrifstofustólum og tölvuskjám.
Vinnuvistfræðilega lausnin sem meðal m.a. Posten Norge og DNB hafa boðið starfsmönnum sínum er ekki eins kostnaðarsöm. Þar geta allir starfsmenn sem þess óska fengið standborðið „Upprétt“ til notkunar á heimaskrifstofunni. Borðið er úr pappa, en hægt að setja það ofan á venjulegt borð og stilla hæðina á því þannig að hægt sé að vinna standandi.
Sveigjanlegri vinnutími
Mörg fyrirtæki hafa gert breytingar á vinnutíma á meðan heimsfaraldurinn gengur yfir. Hjá Ríkisskattstjóra í Noregi (Skatteetaten) hefur til dæmis hefðbundinn vinnutími verið aflagður og starfsmönnum tilkynnt að svigrúm sé til að skipuleggja starfið á annan hátt en venjulega. Ef starfsmaður kýs til dæmis að skipta niður vinnutímanum og dreifa honum yfir daginn, er það leyfilegt svo framarlega sem það fellur innan tímabilsins 06.00 til 21.00. Þessi tilhögun gerir starfsmönnum til dæmis kleift að hefja vinnudaginn heima og ferðast síðan til vinnu eftir álagstíma og halda áfram vinnudeginum á skrifstofunni.
Hreyfing og líkamsrækt
Mörgum starfsmönnum finnst þeir fái minni hreyfingu í daglegu lífi þegar þeir ferðast ekki lengur til og frá vinnu daglega og þeir þurfa því aðeins að lyfta bossanum af stólnum til að fá sér kaffibolla eða brauðsneið. Könnun sem ráðgjafar- og könnunarfyrirtækið Opinion gerði í apríl sýndi að 28 prósent allra kvenna og 21 prósent karla voru með bak- eða hálsvandamál eða svipaða kvilla vegna slæmrar vinnuaðstöðu á heimaskrifstofunni og kyrrsetulífs. Nokkur fyrirtæki, svo sem Telia og Sparebank1 Østlandet, bjóða því upp á líkamsrækt á netinu á vinnutíma. Hjá norsku Landbúnaðarstofnuninni (Landsbruksdirektoratet) hafa starfsmenn
fengið hálftíma frí á hverjum degi til að fara í göngutúr eða hreyfa sig á annan hátt í vinnutímanum.
Félagslega hliðin
Fyrir flest okkar er félagsskapurinn í vinnunni mikilvægur. Norska Vinnumálastofnunin (Arbeidstilsynet) hvetur atvinnurekendur til að nota fjarfundabúnað bæði fyrir formlega og óformlega fundi, svo að starfsmenn geti haldið góðu sambandi sín á milli. Í norska málfarsráðinu (Språkrådet) hefst vinnuvikan með mánudagskaffi á netinu fyrir allt starfsfólkið. Vikunni lýkur síðan með stafrænu föstudagskaffi, lukkuhjóli og spurningakeppni.
Fá samgöngustyrk
Ein af meginástæðum þess að starfsmenn eru hvattir til að setja upp heimaskrifstofu er til að minnka álag á almenningssamgöngur eins og rútur, lestir og neðanjarðarlestir, svo það verði ekki of fjölmennt í þeim. Samt sem áður þurfa jafnvel þeir sem vinna aðallega á heimaskrifstofunni stundum að ferðast á vinnustaðinn sinn. Margir sameina skrifstofur heima og að heiman og vinna til dæmis tvo daga í viku í vinnunni og þrjá daga heiman frá.
Samkvæmt norska viðskiptafréttablaðinu Dagens Næringsliv hefur byggingafyrirtækið Obos greitt starfsmönnum í stærstu borgunum í Noregi 750 norskar krónur (sem samsvara tæplega 11.500 íslenskum krónum) á mánuði gangi þeir eða hjóli til vinnu í stað þess að nýta almenningssamgöngur. Hjá starfsmannaleigunni Muncitori Bemanning fá starfsmennirnir enn meira: fyrirtækið greiðir 1.000 norskar krónur (rúmar 15.000 kr.) á viku til starfsmanna sem hjóla til vinnu, samkvæmt Dagens Næringsliv.