skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kostir og gallar heimaskrifstofu – 4. hluti

Kostir og gallar heimaskrifstofu – 4. hluti

SSF hefur tekið saman og þýtt fjórar greinar norska netmiðilsins FriFagbevegelse sem allar fjalla um kosti og galla þess að vinna heiman frá.

Fjórir af hverjum fimm eiga erfiðara með að vinna heima

Ný könnun bendir til þess að aðeins fimmti hver starfsmaður kann betur við að vinna heima en á skrifstofunni. Fleiri konur en karlar hafa heimaskrifstofur.

Norska ráðgjafar- og könnunarfyrirtækið Kantar framkvæmdi könnun fyrir símafélagið Telenor í kjölfar þess að kórónaveiran sendi marga starfsmenn heim til sín fyrir rúmum fjórum vikum.

Sakna vinnustaðarins

Könnunin sýnir að flestir af þeim 1.000 manns sem svöruðu segjast hafa öðlast meiri færni í tölvumálum og telji sig orðna öruggari í notkun fjarfundabúnaðar. Þrátt fyrir það kvaðst hreinn meirihluti, eða 80 prósent svarenda, kunna betur við að vinna á vinnustaðnum en heima.

„Stafrænar lausnir eins og fjarfundir og netspjall geta ekki komið í stað samskipta milli fólks. Við finnum líka fyrir þessu hérna hjá Telenor. Ferli taka oft lengri tíma. Það sem áður var hægt að afgreiða með beinu spjalli við viðskiptavin, þarf nú að njörva niður með stafrænum lausnum,“ segir Petter-Børre Furberg, forstjóri Telenor í Noregi.

Fleiri konur

Könnunin sýnir einnig að fleiri konur en karlar vinna á heimaskrifstofu. Tæpur helmingur kvenna, 47,7 prósent, vinna heima, á móti 36,5 prósent karla. Það eru líka mun fleiri sem vinna heiman frá í Osló miðað við aðra staði á landsvísu í Noregi.

„Hér sjáum við dæmi um skipulagslegan mun á tegund vinnustaðar. Stóru opinberu fyrirtækin og önnur stórfyrirtæki eru flest með aðsetur í Osló og þau eru í raun best í stakk búin varðandi vinnu starfsmanna heiman frá ,“ segir Petter-Børre.

Beðin um að vera heima

„Kórónavaktin“ (Norsk koronamonitor) á vegum norska ráðgjafar- og könnunarfyrirtækisins Opinion lagði einnig spurningar fyrir úrtak Norðmanna um álit þeirra á vinnu heiman frá. Niðurstöður svara frá 6.000 manns sýna að sex af hverjum tíu hófu vinnuvikuna eftir páska á heimaskrifstofu. Í Osló eru þeir þrír af hverjum fjórum.

„Ástæða er til að ætla að þjónustugeirinn, menntageirinn og vinnustaðir sem byggja á skrifstofuvinnu velji í meira mæli fyrirkomulagið með heimaskrifstofu, og einnig að meirihluti starfsmanna sem nýta það fyrirkomulag sé með háskólamenntun,“ segir Ola Gaute Aas Askheim, ráðgjafi hjá Opinion.

Um það bil helmingur þeirra einstaklinga sem eru í vinnu segist hafa verið beðnir um að vinna heiman frá, jafnvel þó að þeir séu ekki veikir.

Farsíminn skiptir miklu máli

Kórónafaraldurinn hefur einnig sýnt fram á mikilvægi farsímalausna. Norska landlæknisembættið notar SMS til að deila upplýsingum, sveitarfélög nota farsímagögn til að fylgjast með því hvort fólk hunsi bannið við dvöl í sumarbústað og verslanir mæla með Vipps-greiðslum (vinsælt norskt greiðsluapp) og kortagreiðslum af smitvarnarástæðum.

„Norðmenn nýta sér farsímalausnir í miklum mæli. Kreppan hefur sýnt að farsíminn gegnir lykilhlutverki í baráttunni gegn smiti,“ segir Petter-Børre Furberg.

Search