skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

KJARASAMNINGAR FÉLAGSMANNA ASÍ LANGT KOMNIR – HVAÐ MEÐ SSF?

KJARASAMNINGAR FÉLAGSMANNA ASÍ LANGT KOMNIR – HVAÐ MEÐ SSF?

Kjarasamningar félagsmanna ASÍ á almennum markaði eru langt komnir. Með þeim samningum sem gerðir voru í vikunni er búið að ljúka kjarasamningum fyrir um 80.000 launamenn á almenna markaðnum.  Það kemur svo í ljós fyrir jól hvort þeir verða samþykktir. Þessir samningar eru til skamms tíma, með gildistíma frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024.

Nýgerðir samningar iðnaðar-, verslunar- og skrifstofufólks eru ákveðin fyrirmynd að skammtímasamningi fyrir árið 2023 að sögn atvinnurekenda.

Launabreytingar þessa samnings eru í formi hlutfallshækkunar með hámarki krónutöluhækkunar. Mánaðarlaun taka 6,75% almennri hækkun frá 1. nóvember 2022, þó að hámarki kr. 66.000.

Meðallaun SSF eru væntanlega í kringum 950 þús. í dag m.v. launakönnun okkar í október 2021. Laun upp að 978 þús. fengju 6,75% hækkun. Síðan færi prósentan að lækka m.v. 66 þús. kr. hámark. Laun upp á 1,2 m.kr. myndu t.d. hækka um 5,5%.

Almennar launahækkanir á öllu síðasta samningstímabili voru 68 þús. kr. án hagvaxtarauka sem var 7.875 kr. fyrir flesta félagsmenn SSF. Alls 75.875 á tímabilinu.  Laun í þáverandi launaflokki 171 og neðar hækkuðu um 100.500.

Umsaminn hagvaxtarauki 2023 er innifalinn í launahækkun nýgerðra samninga. Hann hefði líklega orðið kr. 9.750 fyrir flesta félagsmenn SSF. Hámarks launahækkun nýgerðra samninga er því kr. 56.250 eða 5,9% fyrir meðallaun innan SSF.

SSF hefur í allt haust leitað eftir því að fá beinar viðræður við fjármálafyrirtækin en ekki náð árangri með það.  Samtök fjármálafyrirtækja, SFF, hafa nú tilkynnt okkur að „viðræður verði með óbreyttu formi þ.e. með SA í fararbroddi“.  Eðlilegt svar okkar við því er að senda málið strax til sáttasemjara og fá hann til þess að stjórna ferlinu.

Það er ljóst að ekki komast allar kröfur að í skammtímasamningi. Nýgerðum samningnum fylgir fylgiskjal með tímasettri verkáætlun fyrir mál úr kröfugerðum sem var frestað. Unnið verður að verkefnum í húsnæði ríkissáttasemjara og er hægt að fara fram á aðstoð hans við þá vinnu sem á að ljúka á árinu 2023. Við munum reyna að koma okkar málum í svipaðan farveg og gert var í þessum samningum.

Staðan í samningamálum SSF er því sú að málið fer til Sáttasemjara í dag og tekur hann þar með við stjórn þess.

Search