JÁRN Í JÁRN Í SAMNINGAVIÐRÆÐUM
Ágætu félagsmenn SSF
Við höfum nú átt þrjá formlega samningafundi í Karphúsinu undir stjórn Sáttasemjara og eftirtekjan er lítil. Það sem okkur stendur til boða samkvæmt formlegu tilboði dagsett þann 9. janúar 2023 er 6,75% launahækkun þó að hámarki kr. 66.000. Þetta þýðir að öll laun fyrir ofan 978 þús. kr. myndu hækka um minna en 6,75%. Að mati samninganefndar SSF væri hér um að ræða ca. 5,6 – 5,8% meðalhækkun á launum félagsmanna SSF og kostnaður fjármálafyrirtækjanna við breytinguna væri sá sami, þ.e. 5,6 – 5,8%.
Að undanförnu höfum við heyrt framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA) ítreka í fjölmiðlum að þeir samningar sem eftir á að gera á almennum markaði megi ekki fara yfir kostnaðarmat þeirra samninga sem gerðir hafa verið við SGS og samflot iðnaðar- og verslunarmanna. Við í samninganefnd SSF höfum aflað okkur gagna sem sýna að kostnaðarmat við þá samninga sem gerðir hafa verið að undanförnu sé um og yfir 8%. Okkur hefur ekki tekist að fá fram viðræður við gagnaðilann um kostnaðarmat og svo virðist sem öll umræða um kostnaðarmat snúi að öðrum stéttarfélögum, m.a. Eflingu, en eigi alls ekki við um SSF.
Við erum því í þeirri stöðu að meðallaunahækkun til félagsmanna SSF samkvæmt tilboði SA væri 5,6 – 5,8%, eða sagt með öðrum orðum að SA leggi til að kostnaður fjármálafyrirtækjanna við framlengingu kjarasamnings verði mun lægri en gildir um önnur fyrirtæki á almenna markaðnum.
Eftir að hafa horft upp á þá stöðu að laun á fjármálamarkaði hækkuðu um tæplega 7% minna en almenna launavísitalan frá upphafi ársins 2019 fram til ársloka 2022, og að kaupmáttur þorra félagsmanna okkar sé nú þegar orðinn minni en hann var í upphafi síðasta samningstímabils finnst okkur einfaldlega komið nóg og við teljum okkur ekki geta boðið félagsmönnun okkar upp á kjarasamning á þessum nótum (6,75% launahækkun með hámarki 66.000 kr.).
Við í samninganefnd SSF höfum lagt fram hugmyndir um að brúa þann mun á kostnaðarmati sem augljóslega er á milli tilboðs til okkar og þeirra samninga sem hafa verið gerðir á síðustu vikum, en þeim tillögum hefur verið hafnað og eftir stendur einungis það tilboð sem getið var um hér að framan.
Við viljum upplýsa félagsmenn um þessa stöðu og þá staðreynd að bankar og önnur fjármálafyrirtæki hafa afsalað öllum rétti sínum til kjarasamninga yfir til SA.
Sáttasemjari hefur boðað næsta fund í deilunni eftir hádegi á fimmtudag og við í stjórn SSF myndum gjarnan vilja heyra stemninguna hjá félagsmönnum fyrir þann fund. Það skiptir miklu að heyra afstöðu félagsmanna um hvað þeim finnst um þessa stöðu og það sem boðið er upp á.
Ari Skúlason, formaður SSF.