skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

TAKTU ÞÁTT Í KVENNAVERKFALLI ÞRIÐJUDAGINN 24. OKTÓBER 2023!

TAKTU ÞÁTT Í KVENNAVERKFALLI ÞRIÐJUDAGINN 24. OKTÓBER 2023!

SSF er meðal þeirra mörgu samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks sem standa að kvennaverkfalli þriðjudaginn 24. október 2023.  SSF skorar á félagsfólk að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti á þessum degi. SSF skorar einnig á fyrirtæki að sýna samstöðu í verki svo konur og kvár geti lagt niður störf þennan dag, án skerðingar á launum.

Þriðjudaginn 24 .október eru konur og kynsegin fólk hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.

SSF eru enn kvennasamtök. Í launakönnuninni frá 2021 voru konur 60% svarenda og samkvæmt félagatali SSF eru konur í dag enn um 54% félagsmanna samtakanna.

Samkvæmt launakönnuninni frá 2021 hallar nokkuð á konur sem vinna í fjármálakerfinu. Heildarlaun kvenna voru að meðaltali um 79% af heildarlaunum karla. 40% kvenna voru í lægsta launabili, en 15% karla. 9% kvenna voru í hæsta launabili, en 26% karla. 27% kvenna höfðu áhyggjur af því að missa starf sitt, en 15% karla. Svo mætti lengi telja, þannig að ljóst er að staða kvenna í fjármálageiranum mætti vera betri.

Þrátt fyrir áratuga langa baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið.

Við sem samfélag virðumst orðin samdauna stöðunni og teljum að jafnrétti komi með tímanum,  jafnvel þó vitað sé að það muni a.m.k. taka heila ævi.

Þess vegna blása, á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og hreyfinga launafólks til kvennaverkfalls á ný. Við leggjum niður störf til að sýna að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Þannig ætlum við að breyta samfélaginu og knýja fram jafnrétti strax.

Samstöðufundir, táknrænir viðburðir og gjörningar verða um allt land og við hvetjum konur og kvár til að sýna samstöðu undir slagorðinu Kallarðu þetta jafnrétti?

 Við hvetjum konur og kvár í nærsveitum Reykjavíkur, svo sem Borgarfirði, Akranesi, Selfossi og af Suðurnesjum til að sýna samstöðu, fylkja liði og mæta á samstöðufundinn á Arnarhóli kl. 14:00.

Samstöðufundir verða einnig haldnir á Vestur-, Austur- og Norðurlandi, en frekari upplýsingar um þá verður að finna á kvennaverkfall.is. Þau sem ekki sjá sér fært að mæta á samstöðufundi eru hvött til að sýna samstöðu með öðrum hætti undir myllumerkinu #kvennaverkfall og með því að hvetja annað fólk til þátttöku.

Við gerum einnig ráð fyrir að líkt og áður muni vinnustaðir geri ráðstafanir til að gera konum og kvár kleift að taka þátt í Kvennaverkfalli og viðburðum dagsins án launataps. Einnig að feður, afar, frændur og bræður taki aðra og þriðju vaktina þennan dag svo sem með því að annast börn, eldri eða veika ættingja og allt skipulag sem í því og heimilishaldi felst.

Search