JAFNRÉTTI Í BankNordik í Færeyjum
Þegar Kenneth Samuelsen, formaður starfsmannafélagsins innan BankNordik, fékk starf hjá bankanum fyrir 37 árum voru karlmenn í öllum leiðandi stöðum í bankanum: „Karlar í stjórn, karlkyns bankastjórar og nánast allir útibússtjórar voru karlmenn,“ segir hann.
Í dag er myndin nánast alveg á hinn veginn. Í stjórn bankans situr kona við borðsendann, bankastjórinn er kona og meðal stjórnenda er kynjaskiptingin nú 50/50. Það er merkilegt að þetta sé orðið svona því karlar sitja yfirleitt í bestu stöðunum á almenna vinnumarkaðnum í Færeyjum.
„Það var ekki spurning um ákveðinn einstakling eða á ákveðnum tímapunkti að ákveðið var að nú skyldi verða jöfn skipting milli kynja. Það hefur verið eðlileg þróun undanfarin ár, segir bankastjóri BankNordik, Turið Arge.
Á árinu 2010 tók hún sjálf við af karlkyns starfsmannastjóra í bankanum – 28 ára að aldri. Hún var svo ráðin bankastjóri í maí í ár. „Ég held að þegar fyrirtæki byrji að ráða kvenkyns stjórnendur þá endurspegli aðrar konur sig í þeim. Þær verða fyrirmyndir og svo koma náttúrulega fleiri kvenkyns umsækjendur fram þegar ráða á í stjórnunarstöður,“ segir hún.
Í dag er það meðvitað val að hafa jafna kynjaskiptingu í bankanum. „En við gefum engan afslátt hvað varðar gæði“ segir Turið Arge. „Við erum með deildir í bankanum þar sem kynjaskipting er enn dálítið skökk en við leggjum áherslu á að jafna það í framtíðinni,“ segir bankastjórinn.
Kenneth Samuelsen, sem einnig er fulltrúi starfsfólks í stjórninni, bendir á að undanfarin ár hafi upplýsingar um stjórnarhætti verið birtar í uppgjörum og almenningur sem og hluthafar fylgi því eftir að markmiðunum sé náð.