Framleiðni vinnuafls og kjarasamningar – fjármálageirinn er einstakur
Þegar rætt er um að gera kjarasamninga til margra ára er oft litið til ýmissa stærða til þess að miða við á tímabilinu og mögulega er reynt að búa til sjálfvirkar tengingar. Enginn vill lokast inni í löngum kjarasamningi ef aðstæður breytast skyndilega. Í fréttum af samningaviðræðum síðustu vikna hefur hugtakið framleiðni vinnuafls oft komið upp.
Framleiðni er flókið hagfræði- eða þjóðhagsreikningahugtak. Í sinni einföldustu mynd er framleiðni þau verðmæti sem verða til við framleiðslu á hverja unna vinnustund. Ef okkur tekst að afkasta meiru á hverri vinnustund en í fyrra er um framleiðniaukningu að ræða, auðvitað miðað við að jafn margir séu að vinna. Verði um mikla framleiðniaukningu að ræða á einhverju tímabil verður til aukinn afrakstur og þá kemur upp sú krafa að launafólk fái hlutdeild í þeim afrakstri.
Það er Hagstofa Íslands sem mælir breytingar á framleiðni. Töluverðar sveiflur eru milli ára hvað framleiðniþróun varðar og mikill mismunur getur verið á milli greina. Á tímabilinu 2008-2022 var meðalframleiðnivöxtur á ári 1,5% í hagkerfinu öllu og 4,4% í fjármála- og vátryggingarstarfsemi. Þannig má halda því fram að meðalframleiðiaukning á Íslandi til langs tíma sé um 1,5% á ári.
Sé skoðað styttra tímabil, t.d. frá 2015 kemur í ljós að framleiðniaukning í hagkerfinu öllu var 1,4% á ári en 7,3% í fjármálageiranum. Sé miðað við 2015, en á því ári voru einmitt gerðir kjarasamningar, var framleiðniaukningin í fjármálageiranum einstök meðal atvinnugreina. Eins og myndin sýnir var meðalframleiðniaukning á ári í hagkerfinu öllu 1,4% á ári frá 2015 til 2022, en munurinn á milli greina var verulegur.
Tækniframfarir hafa auðvitað mikil áhrif á framleiðniþróun. Einn starfsmaður við eina vél skapar 100% framleiðniaukningu ef hann nær að bæta einni vél við og báðar afkasta jafn miklu. Þannig má ætla að tæknibreytingar hafi töluverð áhrif á framleiðniþróun í fjármálastarfsemi og í upplýsinga- og fjarskiptageira.
Hvað fjármálageirann varðar skipta tveir aðrir þættir verulegu máli og það eru launakostnaður og fjöldi starfsfólks.
Fjármálageirinn hefur sloppið mun betur frá kjarasamningum síðustu ára en flestar aðrar greinar vegna krónutöluhækkana, einkum frá 2019. Frá upphafi ársins 2015 fram til október 2023 höfðu laun á fjármálamarkaði hækkað um 75,2% á meðan laun í hagkerfinu öllu hækkuðu um 93% og um 91,7% á almennum markaði. Launakostnaður fjármálakerfisins hækkaði þannig rúmlega 9% minna en hjá fyrirtækjum í hagkerfinu öllu og varð munurinn aðallega til á árunum frá 2019. Slík staða hefur auðvitað áhrif á útreikninga á framleiðni.
Annar stór áhrifaþáttur er veruleg fækkun starfsfólks í fjármálageiranum. Samkvæmt upplýsingum úr ársuppgjörum stóru bankanna þriggja, þar sem stór hluti starfsfólk í greininni vinnur, fækkaði starfsfólki þeirra um u.þ.b. fjórðung á milli áranna 2015 og 2022. Sé starfsemin áfram nokkuð óbreytt felur þessi fækkun í sér verulega framleiðniaukningu.
Eins og fram kom í launatölunum hér að framan er langt frá því að starfsfólk á fjármálamarkaði hafi fengið hlutdeild í þessari einstöku framleiðniaukningu. Hvað bankana þrjá varðar endar afraksturinn að mestu leyti í hagnaði þar sem u.þ.b. helmingur fer að lokum til eigenda sem arður. Þar er ríkissjóður stærsti móttakandinn.
Ari Skúlason,
Formaður SSF