Allir eiga sama rétt á að nýta samningsréttinn
Fimmtudaginn 18. janúar var eftirfarandi haft eftir Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR í Morgunblaðinu: „Það sem SA vill gera er að draga frá okkar kostnaðarmati áætlað launaskrið. Þetta er ný aðferðafræði sem aldrei hefur verið notuð við kjarasamningaborðið og er bæði ósanngjörn og ófyrirleitin, að mínu mati.“
Hvað meinar maðurinn? Í sem allra stystu mál er hann að segja að það sé bæði ósanngjarnt og ófyrirleitið að samtök eins og SSF berjist fyrir því að ná fram eðlilegum launahækkunum fyrir félagsmenn sína. Hópurinn sem setið hefur í Karphúsinu hefur unnið að því að ein og sama krónutöluhækkunin sem yrði til í þeim hópi ætti að gilda fyrir allan vinnumarkaðinn. 26 þúsund kr. launahækkun myndi þannig þýða 5,2% fyrir 500 þúsund krónu launin, en 2,5% fyrir meðallaun innan SSF. Ragnar segir að það sé ófyrirleitið og ósanngjarnt að forysta SSF leiti eftir því að hækka laun félagsmanna sinna um hlutfallslega það sama og aðrir fá. SSF hafi þannig ekki rétt á að nýta sér sjálfstæðan samningsrétt sinn. Einu sinni enn er unnið markvisst að því að skapa stóran afslátt fyrir bankakerfið hvað kostnað vegna launahækkana varðar.
SSF hefur undanfarið komið því skýrt til skila að samtökin séu ekki til í krónutöluhækkunarleik einu sinni enn. Frá því að lífskjarasamningurinn var gerður fram til september 2023 hefur launavísitalan hækkað um 42,5%, laun á almennum markaði um 41,3% og laun verkafólks um 51,8%. Á sama tíma hafa laun á fjármálamarkaði hækkað um „einungis“ 31%. Í september 2023 bjuggu öll þessi samtök enn við jákvæða kaupmáttarstöðu miðað við upphaf lífskjarasamningsins. Það er augljóst að það hefur hallað á starfsfólk á fjármálamarkaði frá því lífskjarasamningurinn var gerður.
Það andmælir því enginn að tekjur á fjármálamarkaði eru háar, enda um mjög hæft og vel menntað starfsfólk að ræða. Yfir 70% félagsmanna SSF eru með háskólamenntun, þetta fólk hefur lagt á sig langt og dýrt nám og kemur þess vegna seint inn á vinnumarkaðinn.
Að halda því fram að þetta fólk eigi ekki rétt á eðlilegum launahækkunum er alger firra, jafn mikil firra og að þetta fólk taki ekki á sig byrðar vegna erfiðs efnahagsástands með nákvæmlega sama hætti og annað fólk á vinnumarkaði.
Það getur hver fyrir sig dæmt um hvað er ósanngjarnt og ófyrirleitið í þessu sambandi.
Ari Skúlason, formaður SSF