Ari í viðtali í Mogga um stöðu samningamála
Morgunblaðið var með umfjöllun um samningamálin laugardaginn 16. mars. Einn af þeim sem rætt var við var Ari Skúlason formaður SSF og fer umfjöllunin hér á eftir:
Ari Skúlason, formaður SSF, segir félagið hafa fylgst með á hliðarlínunni að undanförnu og eru fulltrúar félagsins núna að skoða þá samninga sem gerðir hafa verið. „Það skiptir miklu fyrir okkur í þessu sambandi að tími hreinna krónutöluhækkana er liðinn í bili og að það er ekki lengur verið að vinna markvisst að grófri mismunun gagnvart fólki með hærri laun. Þessir samningar eru því mikil framför frá þeirri krónutölubylgju sem hefur ríkt og ruglað öll launahlutföll á markaðnum verulega,“ segir Ari.
„Ýmislegt í pokahorninu“
Hann segir í svari til blaðsins að félagið muni skoða kostnaðarmat þeirra samninga sem gerðir hafa verið „og við eigum ýmislegt í pokahorninu frá síðustu tveimur samningalotum sem ekki hefur komist að. Það hefur hallað verulega á okkar hóp á tímabilinu frá því að lífskjarasamningurinn var gerður og okkur vantar rúm 8% upp á að ná upp í þá meðalhækkun á tímabilinu sem launavísitalan sýnir. Við þurfum því að spyrja okkur ýmissa spurninga um hvernig við ætlum að leggja framhaldið upp og reyna að finna bestu svör við þeim spurningum,“ segir Ari.