Arion banki fær heimild til að nota jafnlaunamerkið
Fréttatilkynning
Arion banki hefur fyrstur íslenskra banka fengið heimild til að nota jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins eftir að bankinn fékk vottun frá faggildum vottunaraðila, BSI á Íslandi.
Í Arion banka er rík hefð fyrir áherslu á jafnréttismál en bankinn hefur verið vottaður af BSI á Íslandi síðan árið 2015 þegar bankinn fékk fyrst Jafnlaunavottun VR. Þeirri vottun hefur bankinn viðhaldið með reglulegum úttektum.
Jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins, eins og Jafnlaunavottun VR, felur í sér staðfestingu á því að búið sé að kerfisbinda launaákvarðanir og að innan bankans sé til staðar jafnlaunakerfi sem stuðlar að því að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað í launum.
Arion banki er með skýra stefnu í jafnréttismálum sem unnið er eftir innan bankans og bankinn hefur verið aðili að Jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact frá árinu 2014.