Arion banki hlýtur Jafnlaunavottun VR
Arion banki hefur fengið Jafnlaunavottun VR og er þar með fyrstur íslenskra banka til að hljóta þessa vottun. Bankinn hefur þar með fengið staðfestingu á því að búið sé að kerfisbinda launaákvarðanir og að hann sé með jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum ÍST 85:2012. Kerfið mun tryggja að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað í launum.
„Það er afskaplega ánægjulegt en ekki síður mikilvægt þegar stór banki á við Arion banka bætist í hóp jafnlaunavottaðra fyrirtækja og fagna ég því,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR. „Við vonum að þessi vottun verði öðrum bönkum og fjármálastofnunum hvatning til þess að standa Arion banka jafnfætis í þessum efnum en Jafnlaunavottun VR tekur nú til 24 fyrirtækja og stofnana á íslenskum vinnumarkaði“ er haft eftir Ólafíu á heimasíðu Arion.
Ólafía sagði jafnframt að vottunin sé markviss leið fyrir atvinnurekendur til að uppfylla kröfur jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands og sé auk þess tæki fyrir fyrirtæki og stofnanir til að meta stöðu kynjanna innan eigin veggja með viðurkenndri aðferðafræði og samræmdum viðmiðum.
,,Við erum mjög stolt að þeim árangri sem við höfum náð í jafnréttismálum innan bankans og Jafnlaunavottun VR er stór áfangi í þeim efnum,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka. „Jafnréttismálin snerta okkur öll og það skiptir gríðarlega miklu máli að allir, bæði konur og karlar, sitji við sama borð þegar kemur að launaákvörðunum. Það að innleiða staðlað gæðakerfi hjálpar okkur að viðhalda þeim árangri sem við höfum þegar náð og jafnframt gera enn betur.“
Jafnlaunavottun VR felur í sér ítarlega úttekt á launum starfsfólks, starfaflokkun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kjör. Öll fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði geta sótt um Jafnlaunavottun VR, óháð stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna. SSF óskar öllu starfsfólki Arion til hamingju með þennan glæsilega og ánægjulega árangur.
Sjá fréttatilkynningu Arion í heild sinni hér: https://www.arionbanki.is/bankinn/fjolmidlar/frettir/frett/2015/06/15/Arion-banki-hlytur-Jafnlaunavottun-VR/