Átta þúsundum boðinn starfslokasamningur
Danske Bank hefur boðið um 8.000 starfsmönnum starfslokasamning. Sparnaðaráætlun bankans felur þó ekki í sér áform um að loka útibúum.
Stærsti banki Danmerkur, Danske Bank, hyggst fækka í starfsliði sínu. Þetta er liður í áætlun bankans um að draga úr rekstrarkostnaði og starfsmönnum bankans var tilkynnt fyrirætlunin á mánudagsmorguninn var.
Fjölmiðlafulltrúi Danske Bank, Kenni Leth, ræddi við Berlingske Business um aðdragandann að því að mörgum starfsmanna bankans hafa verið boðin sjálfviljug starfslok, hversu margir hafa þegar þegið boðið – og hvort allir starfsmenn sem fara fram á starfslok fá í reynd að gera slíkan samning.
„Í jafnstóru fyrirtæki og okkar eru alltaf einhverjir starfsmenn sem eru að íhuga hvort það er kominn tími til að fara á eftirlaun eða hafa hug á að leita á önnur mið og þarna gefst okkur færi á að gera starfslokaskilyrðin örlítið betri en þau hefðu verið ella,“ segir Kenni Leth.
Hvað verður starfsmönnum boðið upp á?
„Við bjóðum upp á starfslokalaun sem nema frá tveimur mánuðum og upp í óákveðinn fjölda mánaða, allt eftir starfsaldri hvers og eins hjá bankanum.“
Þetta er væntanlega skýrt merki um að þessi fækkun í starfsmannahópi Danske Bank eigi að verða varanleg?
„Þetta er til marks um að við höfum sett okkur afar metnaðarfull markmið til 2018 og ætlum okkur meðal annars að skila minnst 12,5 prósent arði af höfuðstólnum okkar í árslok 2018. Í þeirri áætlun felst einnig að draga úr rekstrarkostnaðinum. Það gerum við með víðtækum hætti og lítum til fjölda rekstrarþátta. Meira en helmingurinn af kostnaðinum hjá okkur er launakostnaður og því komumst við ekki hjá því að rýna í þann lið og laga hann að markmiðum fyrirtækisins – ekki síst með hliðsjón af breyttu atferlismynstri viðskiptavinanna, sem sinna nú í auknum mæli viðskiptum sínum rafrænt.“
Hversu mörgum starfsmanna ykkar hefur verið boðinn starfslokasamningur?
„Þetta er tilboð sem við beinum til danskra starfsmanna okkar, þá einkum starfsmannanna í persónulegu bankaþjónustunni, það er að segja þjónustu við einstaklinga, og í fyrirtækjaþjónustunni, sem annast alla þjónustu við fyrirtæki. Starfsmenn nokkurra annarra sviða fá einnig þetta tilboð. Þetta eru um það bil 8.000 starfsmenn. Við vitum ekki enn hversu margir sækjast eftir að gera slíkan samning, en við búumst ekki heldur við að fækka um 8.000 í starfsmannahópnum okkar.“
Hversu margir búist þið við að þeir verði? Hversu margir viljið þið að þeir verði þegar upp er staðið?
„Það er allt of snemmt að segja til um það núna. Sem stendur erum við að skoða þetta með hliðsjón af þeim umsóknum sem starfsmennirnir senda okkur á næstu þremur vikum og því næst eigum við samtöl við hvern starfsmann til að semja sérstaklega við hvern og einn. Við höfum því ekki slegið neinni tölu á það hversu margar umsóknir við búumst við að fá.“
Ef umsóknirnar sem berast verða ekki nógu margar, má þá búast við uppsagnahrinu?
„Það er engan veginn tímabært að velta slíku fyrir sér. Við erum alls ekki komin að því enn. Núna skoðum við hversu margir það eru sem kjósa sjálfir að sækja um starfslokasamning og við teljum ástæðu til að vænta þess að hjá jafnmannmörgu fyrirtæki og okkar muni einhverjir vilja það.“
Fá allir sem þess æskja starfslokasamning?
„Nei. Það veltur á því samkomulagi sem hver starfsmaður gerir við sinn yfirmann. Það er því ekki tryggt að hver sá sem óskar eftir starfslokasamningi muni fá hann.“
Má búast við að einhverjum útibúa ykkar verði lokað í tengslum við þetta?
„Lokun útibúa er ekki hluti af sparnaðaráætluninni, en við miðum þó ævinlega fjölda og mönnun útibúa við starfsmannahópinn okkar. Sú vinna er hins vegar alveg óháð þessu átaki.“
Hvers vegna ráðist þið í þetta einmitt núna?
„Við gerum það til að tryggja að við höfum forsendur til að ná fjárhagslegum markmiðum okkar til langs tíma og til að sníða fyrirtækið betur að því breytta hegðunarmynstri sem við greinum hjá viðskiptavinum okkar.“
Þið teljið þá ljóst að þessum markmiðum yrði ekki náð með óbreyttum starfsmannafjölda?
„Það hefur frá upphafi verið hluti af áætluninni að ef takast á að ná markmiðunum fyrir árslok 2018 verður að draga úr rekstrarkostnaðinum. Við höfum kosið að nálgast þetta með þeim hætti að þetta sé ákjósanleg leið til kostnaðarminnkunar, til að forðast í lengstu lög að grípa til fjöldauppsagna,“ segir Kenni Leth.
Starfsmennirnir 8.000 hafa frest til loka mánaðarins til að sækja um starfslok, kjósi þeir að gera það.
Frétt: Berlingske Business