skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Fékk skilorðsbundin dóm fyrir líflátshótun

Fékk skilorðsbundin dóm fyrir líflátshótun

Karlmaður var í síðustu viku sakfelldur í héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir hótanir í garð bankastarfsmanna, þar sem hann hótaði þeim lífláti og líkamsmeiðingum. Hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi sem er skilorðsbundið til tveggja ára.

Maðurinn hringdi inn í banka, sem er ekki tilgreindur í dómnum, á þriðjudegi á síðasta ári og hótaði að ráðast á eða drepa starfsmenn bankans, bæði þann sem svaraði í símann og aðra.

„Næst þegar ég er á ferðinni fyrir sunnan að þá ætla ég að koma við hjá ykkur og það verður bara svona hipsum haps hvort að ég ætla að koma og drepa einhvern eða meiða einhvern eða gera eitthvað annað af mér,“ er haft eftir manninum í dómnum, en hann tók fram að þetta væri ekki hótun. „Þetta er ekki hótun ekki bein, ég er bara að segja ykkur hvað ég ætla að koma og gera.“

Maðurinn, sem hafði áður hlotið eins mánaðar skilorðsbundinn dóm fyrir annað brot, hélt áfram: „Það er reyndar ekki þér að kenna en mér finnst þetta viðbjóður og þú mátt koma þessu áfram af því að sjáðu til að miðað við það sem ég hef þurft að upplifa um ævina, að fara inn á Litla-Hraun fyrir að taka út tvo, þrjá aðila eða fimm, sex skilurðu. Skiptir mig engu máli, ég á ekki konu og ekki börn þannig að ég er bara veistu ég er orðinn ógeðslega leiður á þessu. Þakka þér fyrir,“ er haft eftir manninum.

Sem fyrr segir hlaut maðurinn þriggja mánaða dóm, en þar af var einn mánuður frá fyrri dómi en með þessu broti rauf maðurinn skilorð.

Frétt frá RÚV

Search