skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Fleiri boða verkfall

Fleiri boða verkfall

Ástandið á vinnumarkaði verður alvarlegra með hverjum fundi samningsaðila, þar sem bil á milli krafna stéttarfélaganna og tilboða atvinnurekenda virðist breikka í hvert sinn sem þeir tala saman. Flóabandalagið og LÍV (VR) hafa boðað atkvæðagreiðslu um heimild félagsmanna til boðunar verkfalls undir lok maí og byrjun júní.

Kröfugerð og samningafundir
Samninganefnd og formenn aðildarfélaga SSF funduðu síðast miðvikudaginn 29. apríl. Þar var ákveðið að boða til fundar með samninganefnd SA, en sá fundur verður eftir hádegi fimmtudaginn 7. maí. Aðal krafa SSF er að tryggja kaupmátt launa, færa launtöflu upp þannig að hún endurspegli betur raunverulega greidd laun og starfsaldursálag. Desember- og orlofsuppbætur verði hækkaðar og viðmiðunarmörk launa í fæðingarorlofi hækkuð þannig að flestum félagsmönnum verði gert mögulegt að nýta fæðingarorlof. Einnig eru kröfur um hækkun á framlagi í Styrktarsjóð, gamlársdagur verði frídagur, jafnréttisátak og rammasamningur um fastlaunasamninga verði gerður. Ýmis önnur mál eru hluti af kröfugerð SSF.

En allir kjarasamningar byggja að sjálfsögðu á kostnaðarmati. Hvað koma kjarabætur til með að kosta atvinnulífið? Hvaða kjarabætur eru félagsmenn stéttarfélaga tilbúnir að samþykkja í allsherjar atkvæðagreiðslu?

Það er ljóst að kröfur flestra þeirra stéttarfélaga sem komin eru í verkföll eða boðað hafa verkföll eru á hærri nótum en við höfum séð undanfarin ár. Við heyrum af kröfu um 300 þúsund króna lágmarkslaun hjá SGS og 400 þúsund fyrir háskólamenntaða. En um frekari kröfur heyrum við ekki eða fáum að sjá, hvorki á heimasíðum stéttarfélaganna né í fjölmiðlum. Sama var uppi á teningnum í verkfalli lækna. Landsmenn fengu aldrei að sjá raunverulegar kjarakröfur. Ástæða þessa er einföld, það er ekki félagsmönnum í hag að birta ítrustu kröfur um launahækkanir og reka þannig kjarabaráttuna fyrir opnum tjöldum, með öllum þeim hártogunum og misfærslum sem fjölmiðlaumfjöllun óneitanlega fylgir.

Í samningaviðræðum SSF og SA er hvort tveggja rætt um langtímasamning til þriggja ára og einnig um fleytisamning til eins árs. Hver sem niðurstaða samningaviðræðna verður er ljóst að félagsmenn SSF hafa síðasta orðið, með því að samþykkja eða synja kjarasamningi í allsherjar atkvæðagreiðslu.

F.h. stjórnar og samninganefndar SSF
Friðbert Traustason, formaður

Search