Flökkusögur og rangfærslur um snertilaus greiðslukort
Höfundur: Bergsveinn Sampsted, framkvæmdastjóri Kortaútgáfusviðs Valitor.
Greiðslukort eru og hafa alltaf verið í stöðugri þróun þar sem leitast er við að gera notkun þeirra í senn öruggari, þægilegri og fljótlegri.
Notkun greiðslukorta með snertilausri virkni hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi á síðustu mánuðum rétt eins og annars staðar í Evrópu. Tæknin byggir á að örgjörvi kortsins á þráðlaus samskipti við posa. Þannig er hægt að greiða fyrir vöru og þjónustu þegar um lágar upphæðir er að ræða með því að bera kortið upp að posa án snertingar og pinn númers. Hámark upphæðar á hverja snertilausa færslu er innbyggt í kerfið, kr. 5.000 og samanlagt hámark einnig, kr. 10.500. Þegar öðru hvoru hámarkinu er náð verður að staðfesta næstu greiðslu með pinni til að hægt sé að nota snertilausa virkni á nýjan leik. Þetta er gert til að lágmarka tjón af sviksamlegum færslum ef korti er stolið. Eftir sem áður er það mjög mikilvægt að korthafi gæti vel að korti sínu og tilkynni það tafarlaust, glati hann kortinu eða því hafi verið stolið.
Í fyrsta lagi þarf fjarlægðin milli korts og posa að vera innan við u.þ.b. þrjá sentimetra til að posi geti lesið kortið.
Í öðru lagi er einungis hægt að lesa úr örgjörvanum sömu upplýsingar og sjá má framan á kortinu, sem eru; nafn korthafa, kortnúmer og gildistími. Þær duga ekki í öruggum viðskiptum á netinu, eða til að framleiða falsað kort og eru því gagnslitlar einar og sér. Öryggisupplýsingar á borð við pinnið eða CVC-númerið eru dulkóðaðar og er ekki hægt að ná úr örgjörvanum. Ef söluaðili tekur við færslu án þessara öryggiskrafna er hann sjálfur ábyrgur fyrir öllum sviksamlegum færslum.
Í þriðja lagi þyrfti þjófurinn í flökkusögunni að vera með samning um færsluhirðingu, eins og hver annar kaupmaður, ef hann ætti fræðilega að geta tekið út af korti. Mjög strangar reglur og eftirlit er með aðilum sem teknir eru í færsluhirðingu og mjög ólíklegt að aðilar sem ætli sér að stunda sviksamlega starfsemi eins og að framan er lýst fái til þess heimild.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. mars 2017