FSLÍ 90 ára: Baráttumálin allt frá einkennisfatnaði til kjarabóta
FSLÍ, Félag starfsmanna Landsbankans á Íslands, varð 90 ára þann 7. mars sl. Í tilefni af stórafmælinu fengum við Helgu Jónsdóttur og Ara Skúlason til að stikla á stóru í starfsemi félagsins en þau eru fyrrverandi og núverandi formenn þess.
Hefur starfað með FSLÍ í 30 ár
Helga Jónsdóttir, tók fyrst þátt í störfum FSLÍ fyrir 30 árum. „Margt hefur breyst á þessum árum, ég nefni tölvuvæðinguna og breytingar á útibúaneti sem dæmi. Á mínum upphafsárum fór mikill tími í innleiðingu einkennisfatnaðar sem nú hefur verið aflagður. Samrunar við Samvinnubankann og Sparisjóðinn í Keflavík, og síðar sparisjóði Vestmannaeyja og Norðurlands eru eftirminnilegir. Baráttumálin á fyrstu árum félagsins snerust um að fá mötuneyti, hætta vinnu á laugardögum, fá vinnusloppa og margt fleira skemmtilegt. Það var framsýnt fólk í bankanum sem keypti landið í Selvík og voru fyrstu húsin byggð þar árið 1967. Þeim húsum var skipt út og núverandi eldri hús byggð í staðinn á árunum 1995-1996,“ segir Helga.
Starf FSLÍ afar fjölbreytt
„Starf FLSÍ er í rauninni tvíþætt,“ að sögn Ara. „Annars vegar erum við starfsmannafélag sem hefur þann tilgang að gæta hagsmuna starfsmanna í öllu sem snýr að starfinu og vinnustaðnum. Þar eru orlofshúsin mikilvægur hluti en Landsbankinn er með meira úrval og meiri fjölda orlofshúsa en mörg fyrirtæki og stéttarfélög. Síðastliðið ár hefur FSLÍ t.d. unnið að nýju samkomulagi við bankann um rekstur orlofshúsanna þar sem FSLÍ mun væntanlega taka á sig meiri skyldur, en að sama skapi fá að ráða meiru um margt sem að rekstrinum snýr. FSLÍ er einnig með öflugt nefndakerfi þar sem nefndirnar sjá um ákveðna málaflokka, t.d. seljanefnd sem sér um orlofshúsin, íþróttanefnd sem sér um íþróttastarf, skemmtinefnd sem sér um ýmsar skemmtanir o.s.frv. Við rekum skrifstofu, sjáum um að greiða út samgöngu-, íþrótta- og tómstundastyrki fyrir bankann og fleira. Þá er FSLÍ einnig með námssjóð, sem er rekinn í góðri samvinnu við bankann, og einnig sérstakan sjúkrasjóð. Margt fleira mætti nefna eins og t.d. mjög öflugan gönguhóp.
Hinsvegar er FSLÍ hluti af Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og sem stærsta aðildarfyrirtækið í samtökunum höfum við töluvert að segja og tökum þátt í að móta starfið. Trúnaðarmenn á vinnustað eru t.d. kosnir af félagsmönnum FSLÍ og starfa þannig séð bæði í umboði félagsins og SSF. Á vettvangi SSF tökum við þátt í öllu starfi í kringum kjarasamninga og réttindi á vinnumarkaði. Á vettvangi SSF er rekinn öflugur styrktarsjóður þar sem félagsmenn FSLÍ eiga rétt á margs konar styrkjum vegna útlagðs kostnaðar,“ sgir Ari.
Margir áfangasigrar í áranna rás
„Það er ákaflega gaman þegar áfangar sem stefnt er að nást. Þar má t.d. nefna árangur í kjarasamningum sem hefur verið nokkuð góður, t.d. munu laun okkar hækka um 5% þann 1. maí nk. Þá er einnig skemmtilegt að taka í notkun ný orlofshús eins og við gerðum t.d. á Akureyri og Egilsstöðum í fyrra. Auðvitað misstum við önnur á móti en þau voru yfirleitt ekki vel nýtt og þörfnuðust mikils og kostnaðarsams viðhalds,“ segir Ari.
Helga bendir á marga áfangasigra í áranna rás, eins og t.d. nýtt samkomulag um Námssjóð starfsmanna Landsbankans sem var gert við nýja bankann eftir hrunið. Hún tók stolt við íbúð í Kaupmannahöfn á árshátíðinni árið 2008, en sú íbúð hvarf í hruninu. Heitu pottarnir í Selvík voru merkur áfangi og einnig ný hús í Selvík og t.d. á Akureyri og íbúðum í Reykjavík hafi verið vel tekið.
„Sem varaformaður SSF um árabil sat ég jafnframt í samninganefnd og þar eru einna eftirminnilegastir áfangar í fæðingarorlofsmálum og lífeyrismálum. Það eru forréttindi að hafa tekið þátt í starfi stéttarfélagsins og getað lagt hönd á plóg! Barátta fyrri kynslóða skilar sér í ýmsum réttindum sem okkur þykja sjálfsögð í dag, sbr. mötuneyti, lífeyrissjóður, styttri vinnutími, styrktarsjóður, menntunarsjóður, frí á aðfangadag og orlofsdagar, svo dæmi séu nefnd,“ segir Helga.
Dró úr baráttugleðinni í hruninu
Ari segir að mestu breytingarnar hafi orðið í tengslum við hrunið á árunum 2008-2009. „Allt í kringum bankakerfið var mjög erfitt á þeim árum, sérstaklega fyrir það starfsfólk sem vann í framlínu. Frá því að ég byrjaði að starfa innan FSLÍ fyrir u.þ.b. fimm árum hefur ástandið verið nokkuð stöðugt. Við höfum á þessum tíma upplifað stöðuga fækkun starfa hjá okkur, bæði með venjulegri fækkun vegna breytinga og hagræðingar og síðan með útvistun. Kannski má segja að á árunum frá hruni hafi ríkt stöðugur kvíði eða ótti hjá starfsmönnum vegna hugsanlegra breytinga. Gagnrýnin á bankakerfið utan frá hefur ekki minnkað að ráði og starfsmenn heyra stöðugt tal um að störfum innan Landsbankans og bankakerfisins muni fækka mikið á næstu árum. Kannski hefur þessi staða í för með sér að fólk er ekki eins baráttuglatt varðandi kjör og réttindi og áður var,“ segir Ari.
Uppsagnir erfiðastar
Ari bætir við að erfiðustu málin hafi tengst uppsögnum. „Bæði stórum uppsögnum í tengslum við skipulagsbreytingar, en einnig þeim sem minni eru. Af hálfu FSLÍ leggjum við mikla áherslu á að styðja við félagsmenn okkar við slíkar aðstæður, t.d. með viðveru í uppsagnarviðtölum ef starfsmenn óska eftir slíku. Slík þátttaka lendir yfirleitt á trúnaðarmönnum á viðkomandi stað eða formanni og stjórnarmönnum FSLÍ. Þá er ósanngjörn og óvægin umræða um bankann og vinnustaðinn okkur erfið, eins og öllum starfsmönnum,“ segir Ari.
Helga tekur undir með Ara að uppsagnir starfsmanna séu það erfiðasta sem stjórn FSLÍ fæst við og nefnir önnur tengd mál, eins og sölu útibúa og flutning verkefna úr bankanum. „Hrunárið 2008 og öll þau mál sem fylgdu í kjölfarið voru okkur öllum erfið, enda óvissan mikil og starfsöryggi lítið. Reyndar tók ég eldskírn mína í þeim málum þegar bankinn sagði um 63 starfsmönnum upp árið 1993 í kjölfar ríkisaðstoðar. Á þeim tíma datt okkur ekki í hug að það mætti segja starfsmönnum upp störfum nema fyrir brot í starfi. Starfið með trúnaðarmönnum skipar stóran sess í starfi félagsins. Að gæta hagsmuna félagsmanna í starfs- og kjaramálum, efla þekkingu félagsmanna á bankamálum, auka samstarf milli starfsmanna innbyrðis og einnig á milli þeirra og stjórnar bankans og jafna deilur, eru einnig mikilvægir liðir í starfi félagsins“ segir Helga.
Settu upp heilu revíurnar
„Margar af mínum skemmtilegustu minningum í FSLÍ eru í tengslum við kynningar á FSLÍ og heimsóknir á vinnustaði. Árshátíðir fyrri ára eru einnig eftirminnilegar þegar settar voru upp heilu revíurnar og þátttakendur voru leikarar, söngvarar og dansarar Landsbankans! Stórafmæli FSLÍ eru líka eftirminnileg t.d. 60, 70 og 80 ára afmælið. Á 70 ára afmælinu settum við upp sýningar í öllum útibúum – Hin hliðin á bankamanninum – og sýndum handverk, myndlist og ýmislegt fleira. Ég er stoltur starfsmaður Landsbankans með L í hjartastað og vona að ég hafi lagt mitt af mörkum í þágu bankans og starfsmanna! Bankinn er starfsfólkið og saga FSLÍ og bankans er samofin og hagur beggja að við göngum samstíga fram veginn!“ segir Helga að lokum.