Fundað hjá samninganefnd SSF og SA
Í gær, miðvikudaginn 20. maí, var samningafundur í kjaradeilu SSF og SA, en þá voru liðnar tæpar tvær vikur frá því að SSF lagði fram formlega kröfugerð í 19 liðum, en áður höfðu aðilar rætt saman á nokkrum fundum.
Því miður þokast almennar kjaraviðræður hægt en líkt og landsmenn sáu í fréttatíma RÚV í gær þá lýsir Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, núverandi ástandi á vinnumarkaði sem því versta í áraraðir. Magnús hættir störfum eftir 9 daga og sagði í fréttatíma RÚV að ekki yrði boðað til samningafunda nema tilefni séu til, jafnvel þótt allt sé í hnút.
Kröfur SSF
Samninganefnd SSF lagði fram kröfur fyrir samningastímabil frá 1. mars 2015 til 1. júlí 2016. Aðal krafan er að öll laun hækki um 10% á þessum tíma, en að lágmarks krónuhækkun verði 60.000 kr./mánuði. Einnig er gerð krafa á uppstokkun launatöflu með nýjum launaflokkum og niðurfellingu lægri launaflokka, hærri desember- og orlofsuppbót, hækkun greiðslna í fæðingarorlofi, hækkun framlags atvinnurekanda í Styrktarsjóð SSF, lokun á gamlársdag, átak í jafnréttismálum o. fl.
Svar SA og „tilboðið“
Á fundinum kom fram að SA teldi kostnað af kröfugerð SSF nokkuð mikinn og of háan til að samþykkja í styttri samningi (16 mánuðir). Mikill kostnaður fylgir kröfunni um uppstokkun launatöflu, með 3,5% mun milli launaflokka. Áhersla SA er að ná kjarasamningi til þriggja ára þar sem allur vinnumarkaðurinn fari sömu eða svipaðar leiðir að því marki að tryggja kaupmátt og stöðugleika. Því miður virðist langt í land með óskastöðuna um aðkomu alls vinnumarkaðarins þar sem haf og himinn er á milli samningsaðila og enga lausn að sjá þrátt fyrir núverandi skæruverkföll og þá staðreynd að allt stefni í allsherjar verkföll um og eftir næstu mánaðamót.
Tilboðið
Mikill munur er á túlkun SA og verkalýðsfélaga á því tilboði (hugmynd) sem SA hefur sett fram um allsherjar lausn núverandi kjaradeilna.
SA metur tilboðið á allt að 23,5% í þriggja ára samning, en stéttarfélögin meta tilboðið á 14,0%, sem líklega væri hægt að teygja í 16-17% með góðvilja á mati breytinga á dagvinnutíma (og yfirvinnukaups). En skilyrði SA er að dagvinnutími (án allra álaga) verði frá 6 á morgnana til 19 á kvöldin. Og einnig er krafa SA að yfirvinnuálag fari úr 80% niður í 40%.
Í tilboði SA er sæmilega ljóst að hækkun launa almennt verði um 14% á þremur árum, 6,0% í maí 2015, 4,5% í maí 2016 og að lokum 3,5% í maí 2017.
F.h. samninganefndar SSF,
Friðbert Traustason, formaður SSF.