FYRSTI KJARASAMINGUR VETRARINS
Eins og flestir hafa eflaust séð náði Starfsgreinasambandið, SGS (án Verkalýðsfélags Grindavíkur og Eflingar) að landa kjarasamningi sl. laugardag. Samningurinn byggir á krónutöluhækkunum og er til skamms tíma. Stóru tíðindin eru kannski þau að hann gildir frá þeim tíma sem sá eldri rann út, þ.e. frá 1. nóvember. Bæði formenn Eflingar og VR hafa lýst vanþóknun sinni á þessum samningi sem talsmenn SA telja að geti orðið fyrirmynd annarra samninga. Samningurinn rennur út í lok janúar 2024.
Eins og fram hefur komið eru það einungis SGS og Efling sem leggja áherslu á krónutölusamninga. Nú hefur VR gengið inn í samflot iðnaðarmanna, sem hafa ekki mikinn áhuga á krónutöluhækkunum. Við í SSF erum á sama máli og teljum alls ekki að samningur SGS geti orðið fyrirmynd að kjarasamningi fyrir okkar félagsmenn. Hvað okkur varðar skiptir mestu að launa- og kjaraliðir utan taflna í samningi SGS taka prósentuhækkunum. Við munum örugglega heyra töluvert frá SA um um hækkun taxtalauna, láglaunaviðmið, og önnur atriði sem er ekki til lengur í okkar umhverfi. Það mikilvægasta er að launaliðirnir taka prósentuhækkunun og við þurfum horfa til þess.
Það er líklegt að nýtt samflot iðnaðar- og verslunarmanna muni funda með SA í vikunni, og líklega reyna að búa til prósentuútgáfu af nýjum samningi SGS og væntanlega mun koma fljótlega í ljós hvort aðilar verði sammála um að fara þá leið. Fari svo mun væntanlega taka nokkra daga að ná til botns í því máli. Við í stjórn SSF erum stöðugt á vaktinni og metum hvenær besti tíminn fyrir okkur er að koma að borðinu. Við höfum í nokkurn tíma reynt að fá viðræður við fjármálafyrirtækin um okkar innri mál en ekki fengið mikla áheyrn. Nú bendir margt til þess að einungis verði samið til u.þ.b. eins árs og í slíkum tilvikum kemst fátt á dagskrána nema bein launahækkun, önnur atriði þurfa þá að bíða.