Hagræðing þýðir að segja upp fólki
Talað var við Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, í fréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld vegna uppsagna hjá Arion banka.
Þetta hefur þróast þannig hjá bönkunum, eða viðskiptahluta bankanna á Íslandi, að um einn þriðji starfsmanna hefur misst vinnuna, þar af eru um 1700 konur. Við vorum með um 6000 félagsmenn á sínum tíma en erum komnir niður fyrir 4000 núna.
Hagræðing þýðir að segja upp fólki. Það virðist vera að hvergi sé hægt að hagræða annars staðar í rekstri. Yfirbyggingin mætti örugglega taka til sín eitthvað af hagræðingunni hjá öllum stofnunum og fyrirtækjum á Íslandi en það virðist aldrei vera hróflað mikið við því.
Það virðast vera fordómar, að bankamenn eigi allt illt skilið. Öllu er ruglað saman: þeim sem stjórna og þeim sem vinna á gólfinu. Þeir sem stjórna útibúunum og þessu viðskiptabankaneti eru 95% konur og kannski rétt að ítreka það enn einu sinni.