Harðar deilur í Eistlandi
SSF hefur borist beiðni frá UNI Europa Finance vegna ástands kjarasamningaviðræðna bankastarfsmanna í Eistlandi. UNI eru alþjóðleg samtök stéttarfélaga með höfuðstöðvar í Sviss en undir samtökin falla yfir 20 milljónir starfsmanna í rúmlega 900 stéttarfélögum. UNI er skipt niður í ýmsa geira og einn þeirra er fjármálageirinn. Einnig eru svæðisdeildir innan UNI, t.d. Evrópudeild. Uni Europa
Finance er því svæðisdeild Evrópu innan UNI og heyrir undir fjármálageirann.
Félagar okkar í bönkunum Nordea og DNB í Eistlandi eiga í áframhaldandi deilum við stjórnendur um yfirvofandi samruna bankanna undir hinu nýja nafni Luminor bankinn.
Allt frá því að tilkynnt var um samruna bankanna á síðasta ári, hafa stjórnendur Nordea í Eistlandi gripið til hinna ýmsu þekktu bragða til að forðast samningagerð við stéttarfélög: ófrægingarherferða í fjölmiðlum, ráðningu lögfræðinga til að brjóta niður stéttarfélög og síðast en ekki síst hótana gagnvart trúnaðarmönnum sem dirfast að láta skoðanir sínar í ljós. Þetta er óásættanleg þróun hjá tveimur bönkum og hún veldur vonbrigðum vegna þess að þeir eru í góðri samvinnu við stéttarfélög í öðrum löndum þar sem þeir starfa og þegjandi samþykki æðstu stjórnenda varðandi þessi vinnubrögð hjá báðum bönkunum er athyglisverð.
Stöðu mála, eins og hún er núna, má rekja til tveggja orsakaþátta. Annar þátturinn er sú ákvörðun sem stjórnendur Nordea í Eistlandi tóku: að fara frá kjarasamningaborðinu í fyrra með engin sýnileg áform um að snúa sér aftur að því. Stjórnendur Nordea í Eistlandi hafa gefið frá sér ósannar yfirlýsingar og ásakanir varðandi samningaviðræðurnar sem sigldu í strand og kröfur trúnaðarmanna hjá Nordea, og stjórnendur DNB og Nordea hafa hafnað því að skuldbinda sig við kjarasamninga vegna Luminor.
Hinn þátturinn er kúgun og linnulausar árásir á talsmenn starfsmanna, sem hafa t.d. verið fyrirvaralaust fluttir til í starfi án gildrar ástæðu, hlotið launalækkun, þeim sennilega sagt upp vegna fækkunar starfsmanna eftir samrunann og þeir hafa þurft að þola ýmiss konar annan þrýsting frá stjórnendum sínum.
Þessir tveir þættir, ásamt áðurnefndum aðgerðum gegn stéttarfélögum, eru ótækir að dómi UNI Europa Finance, og við erum því að leita til stéttarfélaga um alla Evrópu til að biðja um stuðning þeirra við stéttarfélögin í Eistlandi.
Við verðum að standa saman og taka afstöðu til þess að láta umrædda banka, og fjármálageirann í heild, vita að þessar aðgerðir eru óásættanlegar. Með því að sýna engin viðbrögð við ítrekuðum kröfum okkar um kjarasamningaviðræður og virðingu fyrir rétti starfsmanna, hafa stjórnendur á öllum stigum Nordea og DNB gefið í skyn þær fyrirætlanir sínar að höndla þetta mál sem staðbundið og að auðvelt verði að horfa framhjá því.
Í raun bera bæði Nordea og DNB þá ábyrgð að virða starfsmenn og stéttarfélögin sem eru í forsvari fyrir þá í öllum löndum þar sem þeir eru með starfsemi, og því er UNI Europa Finance að leita til ykkar um að sýna samstöðu og ræða þetta mál við vinnufélaga, fjölmiðla, stjórnendur og aðra mikilvæga hagsmunaaðila í ykkar heimalandi.
UNI Europa Finance ítrekar þær skýlausu væntingar að stjórnendur, og þá sérstaklega hjá Nordea í Eistlandi, hætti tafarlaust að beita trúnaðarmenn stéttarfélaga kúgunum og snúi aftur að samningaborðinu sem fyrst.
UNI Europa Finance skorar á æðstu stjórnendur DNB og Nordea að gefa frá sér skýra yfirlýsingu um að gildi umræðna og virðing fyrir stéttarfélögum og réttindum starfsmanna sem þeir virða í sínu heimalandi verði og eigi að gilda í sérhverju landi sem þar bankarnir eru með starfsstöðvar.
UNI Europa Finance tekur virkan þátt í þessari baráttu og við vonum að þið munið standa með okkur til þess að sýna Nordea og DNB að samstaða alþjóðlegra stéttarfélaga lætur ekki líðast að raddir starfsmanna séu hunsaðar.
Virðingarfyllst,
Michael Budolfsen
Formaður UNI Europa Finance
Oliver Roethig
Svæðisstjóri UNI Europa
Angelo Di Cristo
Framkvæmdastjóri UNI Finance