JAFNRÉTTISÞING Í VIKUNNI
Jafnréttisþing var haldið í vikunni og sátu nokkrir stjórnarmenn SSF þingið. Guðný S. Magnúsdóttir, 2. varaformaður SSF var meðal þeirra og tók saman fyrir okkur neðangreindan pistil.
Við getum gert betur sem samfélag
Jafnréttisþing 2022 fór fram í Hörpu í vikunni þar sem yfirskrift þingsins var „Staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði, aðgengi, möguleikar og hindranir“
Þar kom fram að konur af erlendum uppruna verða fyrir tvöfaldri mismunun, annars vegar vegna kyns en einnig vegna þjóðernisuppruna.
47 ár eru frá fyrsta kvennafrídeginum þar sem konur gengu út og mótmæltu margvíslegri mismunun gegn konum á vinnumarkaði. Sá árangur sem náðst hefur á síðustu áratugum hefur áunnist með mikilli baráttu kvenna en baráttunni er ekki lokið.
Hefðbundin kvennastörf eru vanmetin og vinnumarkaðurinn er kynskiptur þar sem óleiðréttur launamunur er um 13,9% konum í óhag og stafar fyrst og fremst af kynskiptum vinnumarkaði. Það þarf að endurmeta verðmætamat starfa sem byggir á áratugagömlum viðhorfum í samfélaginu.
Hlutfall innflytjenda á Íslandi er um 16% og þær konur sem hafa menntað sig til betur launaðra starfa eru ekki að fá störf við hæfi á íslenskum vinnumarkaði. Dr. Berglind Hólm Ragnarsdóttir lektor fór yfir rannsókn sem gerð var á vormánuðum 2022 um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði og ber yfirskriftina “Láglaunakonur, vellíðan og velferðarkerfið á Íslandi“. Þar kom fram að árangur hefur náðst í að jafna stöðu karla og kvenna en fyrst og fremst meðal kvenna af íslenskum uppruna en ekki þegar kemur að konum af erlendum uppruna. Helstu hindranir þar eru oft á tíðum íslenskukunnátta, takmarkað tengslanet og fordómar. Þær eru líklegri til að vera í láglaunastörfum og vinna lengri vinnudag. Þá eru 8% atvinnuleysi meðal þeirra á móti 2% meðal kvenna af íslenskum uppruna.
Menntun er ekki að skila sér í störfum í samræmi við hana né til launa. Um 53% kvenna af erlendum uppruna með háskólapróf eru í þjónustu- umönnunar- eða sölustörfum á móti 13% kvenna af íslenskum uppruna. Um 23% erlendra kvenna eru í ósérhæfðum störfum á móti 1% kvenna af íslenskum uppruna. Að lokum má nefna að þegar rannsóknin var gerð voru 12% kvenna af erlendum uppruna í sérfræðistörfum og 1% í störfum stjórnenda en konur af íslenskum uppruna þá voru 57% í sérfræðistörfum og 14% í störfum stjórnenda.
Samkvæmt rannsókninni höfðu einungis 25% erlendra kvenna tekjur yfir 700 þúsund í mánaðarlaun á móti 49% kvenna af íslenskum uppruna.
Við getum gert betur sem samfélag, það þarf að taka á móti fólki af erlendum uppruna á jafningjagrunni og við þurfum að beita okkur í sameiningu gegn mismunun. Það þarf að greiða leið erlendra kvenna inn á vinnumarkaðinn í störf sem hæfir menntun þeirra, það er skakkt gefið. Konur tökum pláss og látum í okkur heyra.
ER LAUNAJAFNRÉTTI MEÐAL FÉLAGSMANNA SSF?
Samkvæmt síðustu launakönnun SSF eru konur með um 20% lægri heildarlaun en karlar þegar miðað er við heildarlaun á hverja unna klst. Að teknu tilliti til aldurs, menntunar, starfsaldurst og starfstéttar minnkaði kynbundinn munur á heildarlaunum í 9.7% (vikmörk +/- 1,9%) Það má því gera ráð fyrir því að laun kvenna innan SSF séu á bilinu 7,8% til 11,6% lægri en laun karla að teknu tilliti til alls þessa. Það er því enn verk að vinna. Þetta og fleira má sjá í niðurstöðum launakönnunarinnar (bls. 171) á heimasíðu SSF, https://www.ssf.is/wp-content/uploads/2021/11/4030586_SSF_181121.pdf