Kjarasamningar SSF
Enn er enginn árangur af kjaraviðræðum SSF og SA. Nýr samningur Flóa, SGS, LÍV (ASÍ) hentar þessum stéttarfélögum eflaust vel, en þar er aðal áherslan lögð á að hækka lágmarkslaun í kr. 300.000 á næstu 3-4 árum. Sem betur fer eru afar fáir félagsmenn SSF með laun undir kr. 300.000 í dag, enda kröfur til menntunar og reynslu starfsmanna fjármálafyrirtækja mun meiri en gerðar eru til félagsmanna Flóa, SGS og LÍV sem taka laun samkvæmt lægstu töxtum.
SSF er tilbúið að ræða við fjármálafyrirtækin um kjarasamning innan þess kostnaðarramma sem ASÍ félögin gerðu við SA, en samkvæmt tölum SA og ASÍ er sá kostnaður á bilinu 23-25% á samningstímanum.
,,Launaþróunartrygging“ sem framangreind ASÍ-félög sömdu um hentar afar illa í kjarasamning SSF þar sem innbyggðar eru nú þegar starfsaldurshækkanir og áskilinn réttur til launaviðtals árlega. Svokölluð ,,launaþróunartrygging“ tekur úr gildi persónubundnar launahækkanir næstu 4 árin þar sem, samkvæmt ákvæðum samnings ASÍ/SA, skal draga hluta persónubundinna launahækkana frá þeim launahækkunum sem samið er um í heildarsamningnum.
SSF mun funda með samningamönnum SA og fjármálafyrirtækjanna næstu daga og reyna að ná viðunandi niðurstöðu. Ef það tekst ekki verður deilunni vísað til Ríkissáttasemjara.
F.h. samninganefndar SSF
Friðbert Traustason, formaður