skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kjarasamningar SSF og SA

Kjarasamningar SSF og SA

Ástandið á vinnumarkaði er grafalvarlegt og erfitt að sjá hvernig samningsaðilar ætla að vinna sig nær samkomulagi. Verkföll eru hafin hjá félagsmönnum BHM og félagsmenn Starfsgreinasambandsins búnir að samþykkja verkfallsboðun í næstu viku. Flest stéttarfélög hafa lagt fram kröfur um verulega hækkun launa, en kröfurnar eru flestar á bilinu 20 til 50 prósent.  Þeir sem lægri launin hafa eiga að sjálfsögðu að fá hærri prósentu, enda eru lægri og lægstu laun hrein og klár skömm fyrir íslensk fyrirtæki.

Eins og félagsmenn SSF hafa séð er félag eins og BHM ekki í allsherjarverkfalli, heldur eru verkföll á ýmsum viðkvæmum sviðum svo sem í heilbrigðisþjónustu og eftirliti með afurðastöðvum og sláturhúsum.  BHM hefur þessa heimild til vinnustöðvana og getur því beitt nokkurs konar staðbundnum verkföllum.  SSF er með samkomulag við fjármálafyrirtækin um framkvæmd vinnustöðvunar ef til hennar kemur.  Í 6. grein þess samkomulags segir: ,,Vinnustöðvun er þó því aðeins heimil að hún nái til allra félagsmanna SSF“.

Samninganefnd SSF og formenn aðildarfélaga munu hittast í næstu viku og taka ákvörðun um framhaldið. Formenn SSF hittu fulltrúa samninganefndar SA föstudaginn 10. apríl þar sem farið var yfir stöðuna og möguleika á samningum.  Fundurinn var ágætur og upplýsandi fyrir báða aðila, en engar formlegar kröfur voru lagðar fram á fundinum.

Ef til átaka kemur er rétt að upplýsa að SSF hefur afar sterkan Vinnudeilusjóð, bæði eignir hér á Íslandi og aðild að sameiginlegum norrænum sjóðum starfsmanna fjármálafyrirtækja, NFU.

En það er von okkar hjá SSF að ekki komi til átaka og okkur takist að lokum að gera ásættanlegan kjarasamning.

F.h. stjórnar og samninganefndar SSF

Friðbert Traustason, formaður.

 

Tengdar fréttir:

https://www.ssf.is/stada-kjaravidraedna/

https://www.ssf.is/kjaramal-i-byrjun-mars/

Search