skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Kjarasamningur samþykktur

Kjarasamningur samþykktur

Staðan innan SSF er skrýtin með samþykkt nýs kjarasamnings frá 6. maí. Fleiri voru á móti samningi en með, en samkvæmt reglunum telst samningurinn samþykktur þar sem meirihluta greiddra atkvæða þarf til þess að fella kjarasamning. Það er kannski ekki alveg rétt að hjáseta eða afstöðuleysi sé talin með jáum, krafa löggjafans hljóðar þannig að meira en helmingur þeirra sem kjósa séu á móti til að fella samning, sbr. 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Núna voru það 3,9% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sem tóku ekki afstöðu. Ef litið er á atkvæðagreiðslur okkar á síðustu árum er þetta hæsta tala óákveðinna, en þó ekki úr korti. Í fyrra voru t.d. 3,2% óákveðnir, 3% 2019 og 3,5% 2014. Þetta hlutfall þeirra sem ekki taka afstöðu hefur ekki truflað niðurstöðu hjá okkur til þessa, en þegar mjótt er á munum skiptir þessi hópur verulegu máli.

Margir hafa spáð í hvort þessi möguleiki, að taka ekki afstöðu, sé bara fyrir hendi í kosningum hjá SSF. Svo er ekki. Öll stéttarfélög eru með þennan möguleika við atkvæðagreiðslur um kjarasamninga og þannig hefur það alltaf verið. Félögin fá sérstök fyrirtæki til þess að framkvæma atkvæðagreiðslur og þau eru með nokkuð staðlaðar aðferðir.

Maður getur valið að kjósa eða kjósa ekki. Ef maður kýs í venjulegri kosningu getur maður skilað auðu, skrifað vísu á seðilinn eða skemmt hann á annan hátt. Þannig verða til auð og ógild atkvæði. Til þess að mæta þessum hópi í rafrænni atkvæðagreiðslu er talið rétt og nauðsynlegt að hafa þennan þriðja möguleika með – tek ekki afstöðu. Á Alþingi er “guli takkinn”, – tek ekki afstöðu – notaður og í þing- og forsetakosningum er hægt að kjósa engan (það er að skila auðu).

Við í stjórn SSF höfum rætt þessa stöðu ítarlega á síðustu dögum í því augnamiði að fá rök eða ráð til þess að hnika þeirri niðurstöðu sem blasir við. Í því sambandi höfum við fengið aðstoð og ráð frá Oddi Ástráðssyni lögmanni okkar og hefur hann skrifað minnisblað til stjórnar um atkvæðagreiðslur um gildi kjarasamnings. Því miður eru niðurstöður hans með þeim hætti að lítið sé hægt að gera sem skapi árangur.

Helstu niðurstöður í því sambandi eru að nýleg niðurstaða Félagsdóms sé afdráttarlaus um að auð atkvæði teljist til greiddra atkvæða við mat á því hvort kjarasamningur hafi verið felldur. Af dómnum leiðir að jafnvel þótt fleiri velji að fella samning en að samþykkja hann, heldur hann þó gildi sínu ef nei-atkvæðin eru innan við helmingur greiddra atkvæða að meðtöldum auðum atkvæðum. Álit lögmanns okkar er því að yfirgnæfandi líkur séu á að Félagsdómur kæmist að sömu niðurstöðu um fyrirliggjandi álitaefni. Þá telur lögmaður okkar að ekki sé talið unnt að endurtaka atkvæðagreiðsluna þó mögulega megi benda á tiltekna formlega ágalla, einkum þann að ekki hafi verið kynnt skýrlega fyrir kjósendum áhrif þess að velja „tek ekki afstöðu“. SSF yrði að líkindum sjálft látið bera hallann af slíkum formlegum ágöllum.

Ferill málsins er okkur í fersku minni. Þann 10. maí 2024 hófst atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn meðal félagsmanna SSF. Framkvæmd atkvæðagreiðslunnar var í höndum fyrirtækisins AP media ehf. Á rafrænum kjörseðli var hlekkur á kjarasamninginn, tilgreint að atkvæðagreiðslu lyki kl. 10:00 föstudaginn 17. maí 2024 og spurt hvort kjósandi samþykkti fyrirliggjandi kjarasamning SSF við SA. Gefnir voru þrír valmöguleikar; já, nei og „tek ekki afstöðu“.

Niðurstaðan var að 2721 félagsmaður greiddi atkvæði, af 3574 sem voru á kjörskrá (76,1% þátttaka). 1292 völdu já (47,48%), 1322 völdu nei (48,59%) og 107 völdu „tek ekki afstöðu“ (3,93%). Strax í kjölfarið var sett inn frétt á heimasíðu SSF um niðurstöðuna og hún tilkynnt til SA og Ríkissáttasemjara. Samninganefnd SSF taldi að með niðurstöðunni hefðu félagsmenn SSF fellt kjarasamninginn. SA telur aftur á móti að samningurinn skuli halda gildi sínu, enda hafi hann ekki verið felldur með meiri hluta greiddra atkvæða.

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er fjallað um afgreiðslu kjarasamnings. Þar kemur fram að kjarasamningur gildi frá undirskriftardegi hafi hann verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða. Þá eru sett tímamörk og þátttökumörk svo slík atkvæðagreiðsla dugi til að fella kjarasamning sem hefur verið undirritaður af samninganefndum aðila.

Í nýlegum dómi Félagsdóms frá 23. júní 2020 í máli nr. 6/2020 reyndi með sambærilegum hætti á skýringu og túlkun á ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938. Ágreiningur aðila laut að því hvort að við talningu atkvæðanna skyldi telja með auð atkvæði þegar heildarfjöldi atkvæða væri tilgreindur og þar með hvort samningurinn hefði verið felldur eða samþykktur við atkvæðagreiðsluna. Niðurstaða Félagsdóms er afdráttarlaus um að auð atkvæði skuli teljast með heildarfjölda atkvæða þegar metið er hvort kjarasamningur hafi verið felldur með meiri hluta greiddra atkvæða í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938. Lögmaður okkar álítur að hið sama gildi um atkvæði þar sem kjósandi greiðir atkvæði en velur að „taka ekki afstöðu“.

Að mati lögmanns okkar eru því yfirgnæfandi líkur á að Félagsdómur kæmist að sambærilegri niðurstöðu ef á reyndi um áhrif og niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar um kjarasamning SSF og SA.

Rætt hefur verið um hvort benda megi á ágalla á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar og þá jafnvel endurtaka hana. Kemur þar einkum til að ekki var upplýst um það sérstaklega á kjörseðli að atkvæði greidd með valkostinum „tek ekki afstöðu“ skyldu teljast til heildarfjölda greiddra atkvæða og þar með í raun hafa sama gildi og atkvæði þar sem valið væri að kjarasamningurinn skyldi samþykktur.

Það er meginregla í íslenskum vinnumarkaðsrétti að stéttarfélög ráða málefnum sínum sjálf, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938. Það felur jafnframt í sér að stéttarfélög bera sjálf ábyrgð á því með hvaða hætti þau ráðstafa sínum hagsmunum og þar með hvernig þau framkvæma atkvæðagreiðslu um gildi kjarasamnings. Að mati lögmanns okkar eru því yfirgnæfandi líkur á að stéttarfélag yrði sjálft látið bera hallann af því ef talið yrði að formlegir hnökrar hefðu verið á slíkri atkvæðagreiðslu.

Í ljósi alls þessa er það einróma niðurstaða stjórnar SSF að ekki sé skynsamlegt að reyna að halda áfram með málið og hnika þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir. Niðustaðan er því sú að kjarasamningur SSF og SA frá 6. maí hafi verið samþykktur.

 

Search