KVENNAÁR 2025
Á vel heppnuðu kvöldi í Bíó Paradís sl. fimmtudagskvöld afhenti framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 sameiginlegar kröfur gagnvart stjórnvöldum. Um kröfurnar má lesa nánar hér: https://kvennaar.is
En hvers vegna kvennaár er spurt á vefsíðu nefndarinnar, kvennaar.is. Þar segir m.a:
„Það eru liðin 50 ár frá því að konur hér á landi lögðu niður launuð sem ólaunuð störf sín og stöðvuðu þannig samfélagið. Þrátt fyrir þrotlausa baráttu í hálfa öld búa konur enn við misrétti og ofbeldi.
Metþátttaka í Kvennaverkfallinu fyrir ári síðan, á 21 stað um land allt og stærsta útifundi Íslandssögunnar í Reykjavík, sýndi svo ekki verður um villst að við erum tilbúin til að taka við keflinu frá baráttukonunum sem á undan okkur komu. Valdefling, baráttugleði, og skýrt ákall um breytingar einkenndu þessa gríðarlegu samstöðu rétt eins og árið 1975. Samfélag sem rís svo sterkt upp gegn ójafnrétti hefur alla burði til að verða raunveruleg jafnréttisparadís.
Til að fylgja eftir Kvennaverkfallinu höfum við, fjölmörg samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks tekið höndum saman og leggjum fram kröfur okkar. Við gefum stjórnvöldum eitt ár eða til 24. október 2025 til að breyta lögum og grípa til aðgerða til að tryggja fullt og endanlegt jafnrétti kynjanna.
Við ætlum ekki að bíða lengur! Til að fylgja kröfunum eftir og halda byltingunni áfram boðum við jafnframt Kvennaár 2025 þar sem við fléttum saman baráttu okkar fyrir samfélagi þar sem öll búa við jöfn tækifæri og möguleika. Frekari dagskrá Kvennaárs 2025 verður kynnt í upphafi ársins.
Nú tökum við höndum saman enn á ný og fylkjumst bak við kröfurnar. Við vitum sem er að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Sagan sýnir okkur það. Við getum, þorum og viljum!“