Leiðari formanns: Staða kjarasamninga
Samkvæmt kjarasamningi SSF og SA fyrir tímabilið 1. október 2015 til 31. desember 2018 hækkuðu öll laun félagsmanna SSF á bilinu 20,8% til 25,0%. Í upphafi kjarasamnings árið 2015 hækkuðu laun á bilinu 3,2% til 7,2% þar sem lægri launin fengu meiri hækkun en þau hærri. Í október 2015 var einnig greidd 300.000 króna eingreiðsla til allra í 100% starfi á viðmiðunartímabili, og hlutfallslega til þeirra sem voru í hlutastarfi. Síðasta hækkun launa var 5,0% þann 1. maí 2018.
Væntingar til komandi kjaraviðræðna sem fara í gang eftir sumarleyfi eru misjafnar eftir því hverjir eiga í hlut. Kjararáð henti sprengju inn á borð samningsaðila á vinnumarkaði með glórulausum hækkunum launa opinberra embættismanna, alþingismanna og ráðherra. Vel má vera að þessir hópar hafi átt inni hækkun launa til samræmis við almennar launahækkanir á vinnumarkaði, en að taka 30-40% prósent hækkun í einu stökki var óskynsamleg aðgerð sem setti allt í uppnám.
Margir tala fyrir því að stéttarfélög verði að tryggja umbjóðendum sínum sambærilega hækkun launa áður en næstu kjarasamningar verði settir í atkvæðagreiðslu félagsmanna. Yfirlýsingar forvígismanna verkalýðsfélaga hafa endurspeglað þessa kröfu og erfitt að sjá hvernig viðkomandi geta gengið frá samningum sem verði á lægri nótum en hækkun Kjararáðs nam.
Stjórn SSF, samninganefnd og formenn aðildarfélaga SSF koma saman til fundar í haust til að undirbúa kröfugerð fyrir komandi kjarasamningslotu. Það er afar mikilvægt að félagsmenn hafi samband við félagslega kjörna fulltrúa sína og skrifstofu SSF með hugmyndir og tillögur að kjarabótum fyrir næsta samningstímabil.
,,Sumarið er tíminn“ söng Bubbi. Og þó að íslenska sumarið sé ekki alltaf sól, hiti og blíða þá er mikilvægt að njóta birtunnar og hlaða batterí sálar og líkama fyrir átökin í vetur. Sumarorlof er til að nota eins og mögulegt er yfir sumarmánuðina og mikilvægt að allir sem geta taki 4 vikur samfelldar í sumarfrí.
Gleðilegt sumar!