skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Löggjöf ESB og íslenskur fjármálamarkaður

Löggjöf ESB og íslenskur fjármálamarkaður

Löggjöf ESB hefur mikil áhrif á íslenska fjármálageirann þar sem Ísland þarf að taka upp mikið af reglum þaðan í gegnum EES samninginn. SSF fylgist aðallega með breytingum og nýrri löggjöf í gegnum aðild sína að NFU – norrænum samtökum starfsmanna á fjármálamarkaði. NFU vinnur ötullega að því að hafa áhrif á löggjöf ESB til að efla hagsmuni aðildarfélaga sinna og starfsmanna í norrænum fjármálageirum. Innan aðildarsamtaka NFU eru u.þ.b. 150.000 starfsmenn í banka-, fjármála- og tryggingageiranum á Norðurlöndunum.

Í lok apríl samþykkti Evrópuþingið tilskipun um sjálfbærni áreiðanleikakönnunar fyrirtækja (Corporate Sustainability Due Diligence Directive (CSDDD)), sem er ætlað að ýta undir ábyrgð fyrirtækja á mannréttindum og umhverfisáhrifum. Nú á Leiðtogaráð ESB eftir að samþykkja þessa tilskipun og eftir það fer hún í innleiðingu í aðildarríkjunum. Mikið er um notkun skammstafana í reglusetningarumhverfi ESB og stundum er það ekki nema á færi sérfræðinga að átta sig á hvað er hvað í þeim efnum.

Tilskipunin um sjálfbærni áreiðanleikakönnunar fyrirtækja (CSDDD) er þeim takmörkunum háð að fjármálafyrirtæki (t.d. bankar, tryggingarfélög, fagfjárfestar og eignastýringarhús) eru ekki bundin af öllu gildissviði hennar. Fjármálafyrirtækin munu aðeins verða háð kvöðum um áreiðanleikakönnun fyrir fremri hluta virðiskeðju þeirra, þ.e. það sem snýr að aðföngum og birgjum en ekki neytendum. Hins vegar er fjármálafyrirtækjum skylt að samþykkja og innleiða umbreytingaráætlanir, sem og birta skýrslur um mannréttindi og áreiðanleika í umhverfismálum, samkvæmt tilskipun um skýrslugerð fyrirtækja um sjálfbærni (CSRD). NFU lítur á þessa  nýju tilskipun, (CSDDD), sem mikilvægt skref fram á við, þótt hún byggi á mörgum málamiðlunum.

Áðurnefnd tilskipun um sjálfbærniskýrslu fyrirtækja (CSRD) hefur þann tilgang að stuðla að auknu flæði fjármagns í átt að sjálfbærri starfsemi um allt EES-svæðið. Um þessar mundir er verið að innleiða þessa tilskipun í aðildarríkjum ESB. Með nýjum kröfum sínum er ESB að koma á sameiginlegri og staðlaðri skýrslugerð og auka gæði upplýsinga. Einnig miðar CSRD-tilskipunin að því að tryggja að fyrirtæki gefi frá sér áreiðanlegar og sambærilegar upplýsingar um sjálfbærni til að auðveldara sé beina fjárfestingum í átt að sjálfbærari tækni og fyrirtækjum.

CSRD-tilskipunin krefst þess að öll stór fyrirtæki birti reglulega skýrslur um starfsemi sína á umhverfis- og samfélagslegum áhrifum. Með tilskipuninni gefur framkvæmdastjórnin skýrslugerð um sjálfbærni jafn mikilvæga stöðu og skýrslur um fjárhagsleg atriði. Í framtíðinni sjá menn fyrir sér að ekki þurfi lengur að framkvæma sjálfbærniskýrslugerð sérstaklega, heldur verði hún hluti af venjulegu uppgjöri fyrirtækja.

Í upphafi verða einungis stór fyrirtæki skuldbundin af tilskipuninni (fleiri en 250 starfsmenn, velta meiri en 40 m.evrur og eignir meiri en 20 m.evrur). Eftir þrjú ár mun tilskipunin ná til minni fyrirtækja með fleiri en 10 starfsmenn og þá fer hún almennt að gilda á Íslandi, en ekki verður annað séð að hún muni frá upphafi gilda um stóru bankana þrjá hér á landi.

 

Search