Man fyrsta vinnudaginn eins og hann hefði verið í gær
SSF blaðið ræddi við Hildi Högnadóttur sem nýlega lét af störfum eftir tæplega 53 ár í fjármálageiranum. Hún segir vinnuna í bankanum hafa breyst mikið á þessum tíma en eitt hafi þó ávallt verið eins og það er sé gott samstarfsfólk.
„Ég er fædd í Hátúni í Reykjavík 9. desember 1946, þriðja af fjórum systkinum. Foreldrar mínir komu frá Akureyri og Ísafirði en við fluttum í lítið hús á Kársnesi í Kópavogi árið 1948. Kópavogur var þá sveit og aðeins hús á stangli. Þetta var hálfgerður sumarbústaður. Í húsinu var hvorki vatn né rafmagn svo pabbi þurfti að bera vatn með sér heim úr vinnunni í Reykjavík. Húsið var kynt með kolum og við það stóð útikamar. Nokkrum árum síðar byggði pabbi nýtt hús með flestum þeim þægindum sem eru í dag,” segir Hildur.
„Ég er fráskilin og á þrjár uppkomnar dætur og fjórar dótturdætur á aldrinum 12 til 26 ára. Ég bjó lengst í blokk í Breiðholti en keypti mér lítið hús í Vallargerði í Kópavogi árið 1997 sem ég hef búið í síðan. Þá komst ég aftur á heimaslóðirnar því að ég ólst upp í næstu götu fyrir neðan. Skólaganga mín var hefðbundin. Ég tók svokallað gagnfræðapróf úr verslunardeild við Vonarstrætisskóla, þá 16 ára gömul. Eftir það sótti ég um vinnu hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Ég fór í viðtal, var látin vélrita upp úr framsóknarblaðinu Tímanum, var ráðin á staðnum og send beint þaðan í vinnu. Þetta var skrifstofustarf í fyrirtæki sem hét Dráttarvélar hf. og var á Snorrabraut. Þeir voru með umboð fyrir Massey Ferguson dráttarvélar og ég vann við að skrá eftir nótum í bókhaldi allt sem var selt út úr fyrirtækinu. Ég var ein innan um tíu karla og það var oft fjör á bænum. Einu sinni hentu þeir mér upp á dráttarvél sem ók af stað og ég réð ekki neitt við neitt,” segir Hildur hlæjandi.
„Þegar ég hafði lokið gagnfræðaprófinu og var byrjuð hjá Dráttarvélum hf. kom föðurbróðir minn, sem var deildarstjóri fyrir ábyrgðadeild Útvegsbankans, og vildi fá mig til sín í vinnu. Þar sem ég var nýbyrjuð annars staðar þá kunni ég ekki við að hætta. Ári seinna kom hann aftur og ég lét tilleiðast. Hann kom með öll eyðublöð heim sem ég fyllti út. Síðan rann mánudagurinn 8. júní upp og ég fór til vinnu í Útvegsbankanum við Lækjatorg. Ég hafði aldrei komið þar inn fyrir dyr og vissi ekki einu sinni hvar ætti að ganga inn. Ekki tók betra við þegar inn var komið því að föðurbróðir minn var veikur og eiginlega enginn til að taka á móti mér. Ég var sett í yfirheyrslu hjá starfsmannastjóranum um forfeður mína sem ég vissi nú ekki mikið um, þurfti að hringja í mömmu til að fá upplýsingar og skammaðist mín mikið. Ég var á reynslu í þrjá mánuði sem gengu ekki mjög vel, að mér fannst. Frændi minn var mikið frá og næsti yfirmaður var frekar hranalegur í framkomu. Í þá daga þurfti maður að vélrita öll bréf og ef það var einn stafur vitlaus þá var bréfið ónýtt. Hann reif bréfin og ég fór fram á klósett og grenjaði. Ég ætlaði að hætta eftir þessa þrjá mánuði. Fjórar aðrar konur á aldrinum 30 til 35 ára unnu í deildinni. Mér fannst þetta vera gamlar konur. Þær töluðu við manninn og hann varð steinhissa og sagðist vera mjög ánægður með mig og væri alltaf að biðja um hærra kaup fyrir mig. Það háttaði þannig að þeir sem unnu í ábyrgðadeild voru með hærra kaup en aðrir samsvarandi í bankanum. Þetta þótti svo mjög merkilegt starf þá, þannig að ég hélt áfram og árin urðu 52.”
Hér birtist aðeins brot úr viðtalinu en það má lesa í heild sinni í SSF blaðinu.