NORDEA LEGGUR ÁHERSLU Á AÐ RÁÐA ELDRA FÓLK
Fyrir rúmum tveimur árum síðan, á tímum heimsfaraldursins, breytti norræni stórbankinn Nordea stefnu sinni varðandi ráðningar með tilliti til fjölbreytileika. Þetta hefur falið í sér að á árinu 2022 voru 22% starfsmanna sem ráðnir voru til starfa hjá Nordea það ár 40 ára og eldra – þ.e. “í reynsluhluta aldursskalans”, samkvæmt umfjöllun dönsku viðskiptasíðunnar Finans.dk.
Þar er haft eftir Christinu Gadeberg, starfsmannastjóra Nordea, að árið áður hafi hlutfallið verið mun lægra og að miklu fleira yngra starfsfólk hafi verið ráðið þá. En reynslan er sú að unga fólkið stoppar ekki endilega í fyrirtækinu í mörg ár. Christina segir að með eldra fólki geti bankinn haldið fleirum til frambúðar. Nordea spyr ekki lengur um aldur í ráðningarferlinu og vinnur að því að gera upplýsingar um aldur óáhugaverðar.