Staða kjaraviðræðna
Forsagan – aðdragandi
Staðan í kjaramálum SSF og annarra stéttarfélaga á almennum markaði er vægast sagt snúin. Með markvissum verkfallsaðgerðum, undir skipulögðum áróðri almannatengla, tókst læknum að ná fram 25-30% launahækkun. Áður höfðu kennarar farið í verkfall og náðu einnig verulegum launahækkunum umfram það sem almenn verkalýðsfélög náðu í samningum 2014.
Þessar launahækkanir starfsmanna ríkisins lita mjög allar kjaraviðræður í dag, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Launamenn allra stéttarfélaga vænta að sjálfsögðu þess að þeirra félög krefjist sömu hækkunar og ríkið hefur samið um við tvo fyrrgreinda hópa, en Samtök atvinnulífsins (SA) og ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ítreka í fréttum á hverjum degi að slík hækkun yfir allan vinnumarkaðinn leiði okkur í óðaverðbólgu og ógöngur á komandi árum.
Allt stopp
Kjaraviðræður eru því í raun alveg stopp þó einhverjir ræðist við af kurteisi einni saman. Nokkur félög innan ASÍ hafa lagt fram grunn að kröfugerð, sem hljóðar uppá hækkun lægstu launa, ýmist til eins árs eða þriggja ára. En það fæst engin vitræn umræða og allt stefnir í átök.
Staðan hjá SSF
Stjórn SSF fundaði um kjaramálin fimmtudaginn 19. febrúar þar sem áfram var unnið með samþykktir formanna- og trúnaðarmannafundar frá nóvember sl. Fimmtudaginn 5. mars verður fundur stjórnar SSF, samninganefndar og formanna aðildarfélaga til að leggja lokadrög að kjarakröfum.
Eins og staðan er núna eru meiri líkur á 12-16 mánaða kjarasamningi og áhersla SSF er að semja um prósentuhækkun með lágmarksgólfi í krónutöluhækkun, sem allir munu fá að minnsta kosti.
Friðbert Traustason
Formaður SSF