skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

Úthlutunarreglur

HÉR Á EFTIR ER UPPTALNING Á ÖLLUM STYRKJUM SEM HÆGT ER AÐ SÆKJA UM

Stjórn sjóðsins vill vekja athygli á því að í hvert sinn sem sótt er um styrk, þarf að skila rafrænu umsóknarblaði í gegnum Mínar síður SSF og skönnuðu afriti af frumritum reikninga, ásamt beiðni eða vottorðum sé þess krafist í úthlutunarreglunum. Kostnaður við umbeðin læknisvottorð er endurgreiddur gegn framvísun frumrits reikninga.

Réttur í sjóðinn miðast við það tímabil sem viðkomandi greiðir félagsgjald til SSF og þarf sú þjónusta sem sótt er um endurgreiðslu vegna að hafa verið veitt á því tímabili. Hætti félagsmaður störfum hjá fjármálafyrirtæki eftir að hafa greitt félagsgjald samfellt í að minnsta kosti 6 mánuði á viðkomandi fullan rétt á almennum styrkjum úr Styrktarsjóði í 6 mánuði eftir síðustu launagreiðslu frá fjármálafyrirtæki.

Styrkir eru aldrei greiddir vegna reikninga sem eru eldri en 12 mánaða.  Sama á við um þjónustu sem veitt hefur verið félagsmanni fyrir meira en 12 mánuðum.

Smelltu hér til að sjá dæmi um löglegan reikning

Sjúkradagpeningar eru einungis greiddir þeim sem eru í starfi, en lenda tímabundið út af launaskrá.  Félagsmenn fá greitt miðað við starfshlutfall sl. 12 mánuði. Dagpeningarnir eru 80% af launum, hámarksgreiðsla er kr. 1.200.000 (80% af kr. 1.500.000). Sjúkradagpeningar greiðast í allt að 6 mánuði vegna veikinda félagsmanna, maka þeirra eða barna.

Félagsmenn fá styrk vegna meðferðar hjá löggiltum sjúkraþjálfara, sjúkranuddara, kírópraktor eða sambærilegrar meðferðar í allt að 30 skipti á hverjum 12 mánuðum. Styrkurinn er að hámarki kr. 4.000 fyrir hvert skipti, þó aldrei hærri en 75% af kostnaði. Á kvittun þarf að koma fram dagsetning sem þjónusta var veitt ásamt fjölda skipta.

Hækkun styrkja úr kr. 2.500 í kr. 4.000 á eingöngu við um þá reikninga sem gefnir eru út frá og með 1. janúar 2024.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna hefðbundinna krabbameinsskoðana hjá Krabbameinsfélaginu eða öðrum viðurkenndum aðilum, auk framhaldsskoðana vegna krabbameinsleitar, t.d. blöðruháls og ristilskoðanir. Endurgreitt er að hámarki kr. 100.000 á hverjum 12 mánuðum.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna áhættumatsskoðunar hjá Hjartavernd eða öðrum viðurkenndum aðilum, einnig almenna heilsufarsskoðun.  Endurgreitt er að hámarki kr. 35.000 á hverjum 12 mánuðum.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna meðferðar hjá eftirtöldum viðurkenndum meðferðaraðilum: félagsráðgjafa, fjölskylduráðgjafa, geðlækni eða sálfræðingi. Styrkurinn er greiddur fyrir 10 skipti á hverjum 12 mánuðum að hámarki kr. 15.000 fyrir hvert skipti. Á kvittun þarf að koma fram dagsetning sem þjónusta var veitt ásamt fjölda skipta.

Hækkun styrkja úr kr. 11.000 í kr. 15.000 á eingöngu við um þá reikninga sem gefnir eru út frá og með 1. janúar 2024.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna göngugreiningar og kaupa á innleggjum, meðgöngubeltum og öðrum minniháttar hjálpartækjum. Endurgreitt er að hámarki kr. 25.000 á hverjum 12 mánuðum. Um önnur hjálpartæki fer samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar hverju sinni.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna hvers konar foreldranámskeiða. Endurgreitt er að hámarki kr. 25.000 á hverjum 12 mánuðum.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna meðferðar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði eða á sambærilegum stað/stofnun allt að kr. 5.000 á dag í allt að 28 daga á hverjum 12 mánuðum. Á kvittun þarf að koma fram hversu marga daga viðkomandi hefur dvalið.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna námskeiða sem haldin eru vegna þyngdarátaks samkvæmt læknisráði. Skila verður beiðni frá trúnaðar- eða heimilislækni um að viðkomandi hafi þurft á meðferðinni að halda ásamt frumriti reikninga. Endurgreitt er að hámarki kr. 100.000 á hverjum 12 mánuðum.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna kaupa á sjónglerjum einu sinni á hverjum 12 mánuðum. Styrkurinn er 75% af verði sjónglerja, en ekki umgjarða, þó er aldrei greidd hærri upphæð en kr. 80.000. Kvittun þarf að vera sundurliðuð og sýna verð sjónglerja.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna augnlinsa, styrkurinn er 75% af verði augnlinsa, þó er aldrei greidd hærri upphæð en kr. 25.000 á hverjum 12 mánuðum.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna laseraðgerða á augum og augnsteinsaðgerða. Endurgreitt er að hámarki kr. 200.000 á hverjum 12 mánuðum.

Hækkun styrkja úr kr. 150.000 í kr. 200.000 á eingöngu við um þá reikninga sem gefnir eru út frá og með 1. janúar 2024

Sjóðurinn greiðir styrk vegna tækni- og glasafrjóvgana svo og ættleiðinga. Endurgreitt er að hámarki kr. 400.000 á hverjum 12 mánuðum.

Hækkun styrkja úr kr. 350.000 í kr. 400.000 á eingöngu við um þá reikninga sem gefnir eru út frá og með 1. janúar 2024.

Sjóðurinn greiðir styrk vegna kaupa á heyrnartækjum. Endurgreitt er að hámarki kr. 250.000 á hverjum 12 mánuðum.

Sjóðurinn greiðir dánarbætur (útfararstyrk) við andlát félagsmanns SSF, sem er í starfi við andlát. Upphæð útfararstyrks er kr. 500.000. Heimilt er að greiða vegna andláts barna 20 ára og yngri, enda hafi barn sannarlega verið á framfæri félagsmanns SSF.

Meginverkefni Styrktarsjóðs SSF er að greiða dagpeninga til félagsmanna sem missa laun vegna sjúkdóma eða slysa. Einnig að styrkja félagsmenn sína við ýmsar fyrirbyggjandi skoðanir og meðferðir, s.s. krabbameins- og hjartaskoðun og sjúkraþjálfun.

Athugið að greiðslur úr styrktarsjóði eru skattskyldar, en aðeins er tekin staðgreiðsla af
sjúkradagpeningum (ekki almennum styrkjum) svo skattur af þeim greiðist í álagningu næsta árs.

Sjóðurinn er eingöngu fjármagnaður með framlagi atvinnurekenda sem greiða upphæð sem nemur 0,7% af mánaðarlaunum starfsmanna. Þar sem fjármagn sjóðsins er takmarkað verður einnig að takmarka til hvaða málaflokka er greitt hverju sinni. Úthlutunarreglur eru í stöðugri endurskoðun, með tilliti til þess að hægt sé að sinna meginverkefnum sjóðsins.

Samþykkt á fundi stjórnar Styrktarsjóðs SSF þann 13. desember 2023 og gildir frá 1. janúar 2024.

Stjórn Styrktarsjóðs SSF

Search