skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

STYRKTARSJÓÐUR SSF OG ÍÞRÓTTASTYRKUR FYRIR ALLA

STYRKTARSJÓÐUR SSF OG ÍÞRÓTTASTYRKUR FYRIR ALLA

Styrktarsjóður SSF og íþróttastyrkur greiddur af fjármálafyrirtæki

Greiðsla fjármálafyrirtækja inn í Styrktarsjóð SSF er 0,7% af launum á mánuði. Iðgjald til sjúkrasjóða lang flestra annarra stéttarfélaga er 1% af launum (í grunninn byggt á 7. grein laga nr. 19/1979). Ástæðan fyrir lægra iðgjaldi hjá SSF er sú að samningsaðilar hafa sammælst um að fyrirtækin sem eru aðilar að kjarasamningi SSF greiði sjálf út íþróttastyrki til starfsmanna sinna, reyndar oft í gegnum starfsmannafélög á hverjum stað.

Sjúkrasjóðir margra stéttarfélaga sjá um að greiða út íþróttastyrki til félagsmanna sinna og þá er iðgjald atvinnurekanda í sjúkrasjóði 1% af launum.

Það er því mikilvægt fyrir félagsmenn SSF að vera vakandi fyrir því að sækja íþróttastyrki hjá þeim fyrirtækjum sem þeir vinna hjá. Fyrirtækin á samningsviði SSF greiða 0,3% minna í sjúkrasjóð SSF (Styrktarsjóð) þar sem þessi 0,3% eru ætluð til íþróttastyrkja innan hvers fyrirtækis.

SSF fær reglulega fyrirspurnir um það hvort lausráðnir eða starfsmenn í hlutastarfi eigi rétt á íþróttastyrk.  Grein 2.2.4 í kjarasamningi SSF kveður skýrt á um að starfsmenn sem vinna reglubundið hlutastarf (fyrirfram umsamið starf/starfshlutfall, hvort sem er hluta úr degi eða hlutastarf með öðrum hætti, skuli njóta sama réttar til greiðslu samningsbundinna og lögbundinna rétttinda og þeir sem vinna fullan vinnudag og skulu greiðslur miðaðar við starfshlutfall og venjulegan vinnudag viðkomandi starfsmanns. Í greininni er líka vísað í lög um starfsmenn í hlutastörfum nr. 10/2004 sem ákvæði þessarar greinar byggja á.

Þessi grein í samningnum á auðvitað jafnt við um íþróttastyrk og önnur réttindi á vinnumarkaði. Eins og fram kemur hér að ofan um íþróttastyrkinn er hugmyndin sú að atvinnurekendur noti 0,3% af mögulegu 1% gjaldi í sjúkrasjóð til að greiða íþróttastyrki og í því sambandi er hvergi kveðið á um fastráðningu, fullt starf eða aðrar takmarkanir. Það má þannig halda því fram að neiti atvinnurerkandi starfsmanni um íþróttastyrk ætti hann að greiða 1% af launum hans í sjúkrasjóð í stað 0,7%.

Search