ÞAÐ ÞARF SAMSTARF TIL AÐ BRJÓTA NIÐUR ÆGIVALD SA
Töluverð umræða hefur verið um grein forsvarsmanna Verkfræðingafélagsins á visir.is frá því í síðustu viku. Verkfræðingar, félög innan BHM, hjúkrunarfræðingar og læknar eru nú í sömu stöðu og SSF var í vor. Allir eru að ganga á sama vegginn. Samninganefnd SSF taldi í byrjun maí að rétt væri að gera kjarasamning og leggja hann í hendur félagsmanna. Í atkvæðagreiðslu þar sem rúmlega 80% félagsmanna tóku þátt voru fleiri á móti samningnum en með, en samningurinn taldist samþykktur þar sem meirihluti atkvæða var ekki á móti. Óvenju margir tóku ekki afstöðu og það olli þessari niðurstöðu.
Félagsmenn SSF voru því langt frá því að vera sáttir. Í síðustu þremur samningum hefur reyndin verið sú að nokkrir hópar innan ASÍ hafa ákvarðað launastefnu í þéttu samstarfi við SA, sem síðan keyrir þá lausn yfir allan almenna vinnumarkaðinn. Samninganefndir ríkis, sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar hlýða ægivaldi SA og gera það sama. Í síðustu samningum tókst reyndar að brjóta niður hugmyndir um hreinar krónutöluhækkanir og þak á launahækkanir og það var ein ástæða þess að samninganefnd SSF var til í að undirrita samning.
Í raun ógnar þetta ægivald SA og nokkurra hópa innan ASÍ tilveru sjálfstæðra stéttarfélaga, sérstaklega þeirra sem eru með milli- og hærra launaðri hópa sem félagsmenn. Undanfarið hefur verið samið um þokkalega kaupmáttarlausn fyrir lágtekjuhópana á meðan kaupmáttarstaða hærri tekjuhópa er látin lönd og leið. Ein afleiðing þessa gæti orðið sú að félagsmenn milli- og hærra launaðra gætu farið að efast um tilgang þess að tilheyra stéttarfélagi ef það þarf sífellt að afrita það sem láglaunahópar semja um.
Í samningaviðræðunum í vetur varð til lauslegt samband á milli nokkurra iðnaðarmannahópa innan ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, Verkfræðingafélagsins, SSF og fleiri félaga. Sum þessara félaga voru með útrunninn samning og önnur ekki. Iðnaðarmannafélögin sömdu fljótlega og eins og áður segir gekk SSF frá samningum í byjun maí. Flest eða öll hin félögin eru enn án samnings. Öll eiga þessi félög það sammerkt að gæta hagsmuna milli- og hærra launaðra hópa. VR ætti eflaust heima í þessum hópi, en þar á bæ hefur verið lögð mun meiri áhersla á hagsmuni lægst launuðu hópana en milli- og hærra launaðra hópa.
Eina leiðin til að sporna við þessari óheillaþróun og að komast út úr þessum ógöngum er að öll þessi stéttarfélög (flest utan ASÍ) sameinist gegn ofurvaldi SA og einstakra hópa innan ASÍ. Þetta samstarf þarf að vera mun markvissara og formlegra en var sl. vetur og e.t.v. þarf að bæta fleiri félögum í hópinn. Sum þessara félaga semja á almenna markaðnum og sum á þeim opinbera, en mismunandi markaðir ættu ekki að koma í veg fyrir öflugt samstarf sem snýr að því að sérhvert stéttarfélag endurheimti sjálfsákvörðunarrétt sinn. Ef þessi félög halda áfram að berjast hvert í sínu horni, hvert um sig með 500 – 5000 félagsmenn, þá eru því miður ekki miklar líkur á að þau nái miklum árangri. Samstaða þessar félaga um ákveðin markmið gæti hins vegar skilað árangri.
Ari Skúlason
Formaður SSF