Tölur úr uppgjörum bankanna – miklar greiðslur til samfélagsins
Ársfjórðungsleg uppgjör viðskiptabankanna vekja jafnan mikla athygli og niðurstöðurnar lenda jafnan milli tannanna á fólki, sérstaklega stjórnmálamönnum, og oft eru hinar ýmsu stærðir túlkaðar á óhefðbundinn hátt. Fókusinn er oftar en ekki settur á hagnað bankanna sem óneitanlega er mikill sé miðað við íslensk fyrirtæki. Í því sambandi skiptir auðvitað miklu að þarna er um að ræða stærstu fyrirtækin á íslenskum markaði og ef grannt er skoðað er arðsemin af rekstri bankanna oft ekki meiri hlutfallslega séð en gerist meðal stórra fyrirtækja í öðrum greinum.
Sé litið á 9 mánaða uppgjör bankanna má sjá að samanburður við síðasta ár er ekki slæmur. Hagnaður Landsbankans eykst ágætlega á sama tíma og hagnaður Íslandsbanka og Arion dregst lítillega saman. Samanlagt jókst hagnaður bankanna þriggja um rúma 2 ma.kr., eða um 7,3% milli ára.
Launakostnaður stóru bankanna þriggja jókst með álíka hætti á milli þessara tímabila, þó hlutfallslega minnst hjá Landsbankanum. Það er þó varhugavert að draga of miklar ályktanir af upplýsingum um þróun beins launakostnaðar í uppgjörum þar sem margir mismunandi þættir hafa áhrif á launtölu í uppgjöri.
Sé litið á laun sem hlutfall rekstartekna má sjá að hlutfallið er nokkuð svipað meðal þessara banka. Hlutfall launa af rekstrartekjum hækkar á milli ára hjá öllum nema Arion banka þar sem það lækkar nokkuð. Hér má minna á að breyting á rekstrartekjum hefur væntanlega meiri áhrif á þetta hlutfall en breyting launa.
Eins og sagði í upphafi skýrir stærð bankanna auðvitað hagnað þeirra að miklu leyti. Efnahagsreikningar bankanna eru gríðarstórir og eiginfjárbinding mikil. Arðsemi eigin fjár allra nema Arion jókst á milli ára. Á þessum tveimur tímabilum var arðsemi eiginfjár stóru bankanna á bilinu 16-20%.
Allir viðskiptabankarnir leggja mikla áherslu á hagnað og eru arðgreiðslur þeirra miklar miðað við það sem almennt gerist á íslenskum markaði. Eins og staðan er núna rennur mjög stór hluti arðgreiðslna til ríkissjóðs sem á nær allan Landsbankann og stóran hlut í Íslandsbanka. Reyndar eiga lífeyrissjóðir um þriðjung í Íslandsbanka og meirihluta í Arion. Starfsfólk bankanna nýtur þessarar velgengni ekki í sama mæli og gerist t.d. í fiskveiðum þar sem um hlutaskiptakerfi er að ræða. Allur arðurinn af góðri afkomu rennur til eigenda og aðallega ríkissjóðs.
Þessu til viðbótar eru bankarnir skattlagðir mun meira en fyrirtæki í öðrum greinum og óvaxtaberandi bindiskylda hér er verulega hærri en í nálægum löndum. Vegna reksturs á árinu 2023 þurftu fjármálafyrirtæki hér á landi að greiða um 17 ma.kr. í sértæka skatta. Þar er um að ræða þrenns konar skatta sem önnur fyrirtæki þurfa ekki að greiða, þ.e. skatta af launagreiðslum, skuldum og hagnaði. Þá þurfa þau einnig að greiða sérstakt gjald fyrir rekstur Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara og samanlagt nema þessir sértæku skattar og gjöld u.þ.b. 20 milljörðum króna sem bætast við aðra skatta sem öll fyrirtæki greiða.
Tekjurnar sem starfsfólk fjármálafyrirtækja skapa fyrir samfélagið eru því verulegar og margir telja að hlutur starfsfólks í afkomu bankanna mætti vera meiri.