Umfang heimavinnu getur skipt máli
Sveigjanleiki skiptir miklu máli til að manni líði vel í vinnunni, en það má líka sjá neikvæða hlið á málunum, sýnir ítarleg könnun systursamtaka okkar í Danmörku um líðan fólks í vinnunni.
Þú sparar ferðatímann í vinnuna, getur þvegið þvottinn og hleypt iðnaðarmanninum inn sem kemur um miðjan dag. Og svo gætir þú líka unnið með mun einbeittari hætti þegar þú situr (í eigin fyrirtæki) á heimaskrifstofunni og truflast ekki af þvaðri eða hávaða frá samstarfsfólki í kringum þig í stóra vinnurýminu.
Á hinn bóginn geta of margir heimavinnudagar haft áhrif á aðra þætti tengda vinnunni sem þú tekur kannski ekki strax eftir.
Líðan í vinnunni og samfélagstilfinning er háð fjölda heimavinnudaga. Það sýna niðurstöður vellíðunarkönnunar systursamtaka okkar í Danmörku sem gerð var meðal 9.200 félagsmanna.
82,9% þeirra starfsmanna fjármálafyrirtækja sem ekki vinna heima svöruðu því í könnuninni að þeim liði vel á vinnustaðnum núna. Það sama gildir aðeins um 71,7 prósent þeirra sem vinna fjóra daga eða fleiri heiman frá sér í viku.
Það er væntanlega hárfínt jafnvægi á milli möguleika einstaklingsins á sveigjanleika og þess að vera hluti af samfélagi á vinnustað. Þarfir og óskir eru mismunandi eftir einstaklingum en almennt séð er væntanlega lítill vafi á því að samstarfsmenn og vinnustaðurinn eru mikilvægir fyrir vellíðan.
Samfélagstilfinningin fer líka minnkandi, því fleiri daga sem þú vinnur heima. 85,3% þeirra sem vinna aldrei heima telja sig tilheyra öflugu samfélagi í vinnunni en það sama á aðeins við um 69,9% þeirra sem sitja heima fjóra daga vikunnar samkvæmt dönsku könnuninni.
Það er því töluverð hætta á því að sumir nái ekki að verða hluti af samfélaginu og að þeir sem vinni of mikið heima, verði of einangraðir og einmana. Reynsla margra fyrirtækja í Danmörku eru frekar í þessa átt en í hina áttina og að fólk afkasti minna heima.
Tæknin opnar stöðugt nýja tengingarmöguleika, en samt sem áður skiptir það verulegu máli í nútíma atvinnulífi að skapa bestu umgjörðina fyrir sveigjanleika á sama tíma og hægt sé að viðhalda einingu og tengslum á vinnustaðnum. Þessi áskorun er mjög mikilvæg í fyrirtækjunum og hún er ekki síður mikilvæg fyrir okkur sem stéttarfélag því það er engin staðallausn sem hentar öllum. Þess vegna snýst þetta mikið um að finna þær lausnir í sameiningu sem virka í reynd fyrir einstaklinginn.